Furðuleg tilfinning bjó um sig neðst í maganum á mér. Hjartað í mér hamaðist eins og ég hefði nýlokið daglega hlaupinu mínu og mér var hálf óglatt. Mér fannst sífellt eins og einhver veitti mér eftirför, sem þó var afskaplega ólíklegt þar sem að ég var á enn einni næturvaktinni og við mæðgurnar settar á vakt saman, og ég leyfði mér að efast um að móðir mín sæi ástæðu til að elta mig eins og hundur útum allt hús og fela sig þess á milli.
Gæsahúðina aftan á hálsinum skrifaði ég á gegnumtrekk. Þrátt fyrir að júlímánuður væri enn ekki liðinn var nær aldimmt úti og lægðin yfir landinu hélt veðrinu kyrru en svölu. Ég var niðursokkin í að strauja sængurföt niðrí þvottahúsi og söngla með sjálfri mér þegar mamma bað mig um að þegja, mér þótti það nú svo sem ekkert óeðlilegt þar sem að hún biður mig iðulega um það þegar ég byrja að rymja óþekkjanleg lög, hún hallaði undir flatt og spurði mig hvort ég hefði ekki heyrt eitthvað, ég svaraði nú eins og var að það heyrðist ekki neitt. Ég hélt áfram og eftir augnablik gerði mamma það líka. Það liðu varla meira en tvær mínútur áður en hún sperrti sig aftur og hélt því fram að hún heyrði eitthvað, kannski bank? Hún ákvað að athuga málið og sagðist koma strax aftur. Ekki nennti ég að fara að eyða nóttinni í að elta ímynduð hljóð á heimili þar sem búa tæplega fjörtíu manns, svo ég brosti bara annarshugar og hélt starfi mínu áfram í þvottahúsinu.
Þegar að liðnar voru rúmar tuttugu mínútur og mamma hafði hvorki skilað sér né látið í sér heyra ákvað ég að athuga með hana. Ég rölti fram og skimaði í kringum mig. Það var algjör þögn yfir húsinu, vissulega væri það gott á hvaða heimili sem væri, en á dvalarheimili þar sem búa þetta margir er það óðelilegt ef ekki heyrast hljóð, venjuleg heimilishljóð. Fyrir endann á ganginum niðri blöktu gluggatjöldin. Fjandinn, ég var alveg handviss um að ég hefði læst hurðinni fyrr um kvöldið. Svo ég gekk inn myrkan ganginn og lokaði hurðinni. Setti hana í lás, í það sem ég var viss um að væri í annað skiptið þá nóttina. Þegar ég sneri mér við sá ég skugga hverfa inn í hjúkrunarherbergið á hægri hönd. Hjartað sló örlítið hraðar, en allt kvöldið var búið að vera svo furðulegt að ég hristi bara höfuðið yfir þessu og ýtti hálfopinni hurðinni inn í herbergið upp á gátt. Átti nú von á því að sjá mömmu sitja þar glottandi, en herbergið var tómt. Vegna flutninga voru ekki einu sinni húsgögn þar inni, og ekki var mikið um húsgögn á ganginum heldur svo það sem var dularfullt við þetta var hvaðan skugginn hafði komið. Ég hraðaði mér tilbaka og inn í þvottahús aftur, kannski hafði mamma komið aftur og væri ósköp róleg að brjóta saman handklæðin sem við áttum eftir.
Þegar ég opnaði þvottahúsið var búið að kveikja á útvarpinu, ég gat þó allavega andað léttar. Mamma var líklega komin í leitirnir og óþarfi að verða hrædd. Þegar ég leit inn sá ég að þvottahúsið var mannlaust, en einhver hafði raðað öllum handklæðunum á gólfið í snyrtilega röð. Vandlega, horn i horn. Í miðjunni hafði þvottapokunum verið staflað. En engin skóför á handklæðunum eða þau hreyfð á nokkurn hátt, þau litu meira út fyrir að hafa verið straujuð á gólfinu.
Mér hætti að standa á sama.
Ég hálfhljóp upp tröppurnar. Leit inn báða gangana uppi, það heyrðist ekki hljóð en báðar hurðirnar, í hvorum enda, stóðu upp á gátt. Þá fór lyftan af stað. Ég gekk hikandi af stað og staðnæmdist fyrir framan hana. Ákvað að mamma hefði farið niður til að hrekkja mig, og svo tekið lyftuna upp. Lyftan opnaðist en enginn í henni. Þegar hún lokaðist aftur fann ég kaldan gust leika um andlitið á mér, og fannst ég finna hendi strokið um ennið á mér. Ég bakkaði frá lyftunni og stefndi að matsalnum, sem var alveg myrkur. Ég hafði þó skilið eftir ljós í honum, ég teygði mig í slökkvarann, ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að ganga inn í hann á meðan ljósin voru slökkt. Ég leit útum gluggann og sá að bíllinn var ennþá fyrir utan, svo mamma hafði ekki stungið mig af. Ég vissi ekki hvort það gladdi mig eða ekki.
Lyftan gekk upp og niður í nokkrar mínútur en staðnæmdist svo uppi. Það leið smástund áður en dyrnar opnuðust aftur. Ég sá ekki beint inn í lyftuna, en ég sá skugga manneskju frá henni. Einhver stóð inní lyftunni, hreyfingarlaus.
Ég settist niður, á kalt gólfið. Tók um hnén á mér og velti því fyrir mér hvort ég ætti að reyna að komast út og út í bíl, ég gæti kannski hringt í einhvern?
Skugginn bærði á sér. Ég fann hvernig svitinn rann niður bakið á mér og ég get sagt ykkur það að ég hef aldrei á minni stuttu ævi verið jafn skelfingu lostin og þessa sekúndu sem leið þar til mamma steig útúr lyftunni. Ég stökk á fætur og tárin runnu niður vangana af einskærum feginleik.
Hún var alveg stjörf. Kaldsveitt og þvöl. Hendur hennar skulfu og augun voru mött. Hún gekk beint áfram, án þess að líta til hægri eða vinstri. Þegar ég greip í hana sneri hún sér hægt að mér og í henni heyrðist hryglukennt hljóð sem ég ímynda mér að heyrist í fólki sem er að yfirgefa þennan heim fyrir annan. Hún horfði beint á mig en sá mig ekki. Ég leiddi hana að næsta stól við lyftuna og reyndi að fá hana til að tala við mig. Hún starði bara fram fyrir sig og reri fram og aftur. Ég var staðin upp og ætlaði að draga hana með mér inn á vaktherbergi og hringja á hjálp, þegar henni varð skyndilega litið á mig og litur færðist í vangana.
"Alfa mín, hvernig varstu svona fljót upp? Þú sagðir mér að taka lyftuna.."
10 comments:
GÆSAHÚÐ!!!
Mjög mikil GÆSAHÚÐ
Mér finnst þetta vera of stutt :) og pant ekki lenda mér þér á elliheimili, búandi svona til og orðin kölkuð og alles!
Hölli.
ég tók þig út af því að ég hélt að þú værir hætt að blogga. set þig inn strax núna!!!:) LOFA!
hheehhemmm.. hvað meinaru?? hlóst að mér á baki!?;) NOT understanding!!:)
GÆSAHÚÐ snilld og meiri snilld!!! meira takk ... þú ert náttla snilldar penni!
Vá, díses.
Hae snulla,langadi bara ad lata vita adeins af mer. Tad er allt frabært og eg er buin ad blogga adeins. Veit ekki hvenær eg redda sima en hringi i tig um leid!! Knus og tusund kossar fra køben!!
sjáumst á föstudaginn skat ;o)
Hæ ormur, þú ert ennþá með tengil inná blog.central síðuna mína, ertu til í að breyta því í www.holli.dk
Oj.... þú verður að segja hvort þetta sé satt! gæsahúð!
Post a Comment