Monday, August 21, 2006

Streetmaker 3000..-

Það var afskaplega mikil sól þennan dag, svo mikil að mig hálfverkjaði í augun þegar ég dró frá gluggunum. Ég ákvað í hálfkæringi að eyða fyrri parti dags nakin, þar sem ég var ein heima og strípihneigðin farin að segja til sín. Ég settist út á pall og hneigði höfuðið í átt til nágrannana sem störðu á mig í því sem ég get aðeins ímyndað mér að hafi verið hneykslun. Mér var sama, ég var nakin og ég var ein í heiminum- mínum heimi. Hann er alltaf fullur af sólskini og laus við öll vandamál. Hann er fullur af bleikum kokteilum og marglitum rörum, frábærri tónlist og hýrum salsadansandi karlmönnum.

Ég kveikti á græjunum og hækkaði í botn. Ég tók upp gítarinn og ímyndaði mér að ég sæti fyrir framan fullan sal af fólki og þau dáðu mig öll með tölu. Ekki þurrt sæti í húsinu. Ég söng lika, og ekki eina feilnótu heldur. Þessi dagur var snilld. Í mínum heimi eru ártöl afstæð, eins og tíminn og ástin.

Eftir að hafa setið stutta stund í garðinum og leyft vindinum Jóni að leika um heitan líkamann birtist mér maður. Hann var klæddur í brúnan kyrtil, með hár niður á axlir og í úr sér gengnum sandölum. Hann kynnti sig sem Móse. Með honum var maður sem mér þótti í meira lagi áhugaverður. Hann leit út fyrir að vera algjörlega aldurslaus, með sítt hvítt hár sem hékk niður á bak og skegg sem náði niður á brjóstkassa. Hann var í ljósbláum ökklasíðum kyrtli, sem þó virtist breyta um lit eftir því í hvaða átt vindurinn blés. Stundum var hann grænn, stundum blár, stundum varð hann nærri því gulur. Hann var líka með háan uppmjóan hatt á hausnum, í sama lit og kyrtillinn. Hann hélt dauðahaldi í staf, ef staf má kalla, sem leit út fyrir að hafa verið rifinn af dauðu tré. Móse kynnti hann sem Merlin.

Þeir tylltu sér sínu hvoru megin við mig og virtust ekkert kippa sér upp við það að ég væri nakin. Þeir virtust ekki einu sinni taka eftir því. Móse hallaði sér aftur og teygði sig í bakka, fullan af háum glösum fullum af bleikum vökva, með marglitum rörum í. Þeir freyddu og mér fannst þeir hvísla nafnið mitt hljóðlega.
Ég tók mér glas í hönd, sem og þeir, og beið. Ég vissi ekki hvað þeir vildu, eða til hvers þeir höfðu komið svo ég brá á það ráð að þegja og leyfa þeim að eiga fyrsta orðið.

Eftir að hafa innbyrgt þriðja glasið af þessum seiðandi drykk, hallaði Merlin sér að mér og tjáði mér það að þeir kæmu færandi hendi. Þeir hefðu leitað lengi lengi, að réttum stað og réttri manneskju og fundið Ísland og svo fundið mig. Ég var að sjálfsögðu upp með mér og brosti mínu breiðasta. Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að ég hafi brosað af spenningi, ég held ég hafi verið orðin drukkin af bleika, freyðandi drykknum með marglitu rörunum.
Þeir sögðust ætla að leggja undir sig heiminn og væru með allt til þess, nema staðinn. Staðurinn væri ekki svo langt frá þar sem ég ætti heima og það eina sem þyrfti að gera væri að leggja þangað veg, til að koma þangað öllu sem þeir þyrftu. En þar sem að þeir væru löngu dánir, þyrftu þeir dauðlega manneskju til þess arna.
Ég spurði þá að sjálfsögðu afhverju Merlin, mesti galdramaður sögunnar, myndi ekki bara galdra fram veg, og þeir svöruðu mér því að þetta þyrfti að vera gert af höndum manneskju svo seiðurinn myndi ekki fara úrskeiðis. Ég tók þetta gott og gilt, og bað um annað glas af drykknum góða.

Afhverju Ísland, spurði ég. Þeir sögðu mér að á Íslandi væri að finna eina mestu orkustöð heims og þeir þyrftu þessa orku með í þennan mikla seið, þeir tjáðu mér það líka að þeir væru búnir að vera að undirbúa sig í hundruði ára.
Ég benti þeim á að þeir hefðu nú ekki einu sinni verið uppi á sama tíma. Fannst ég vera að gera mikla uppgötvun. Móse sagði mér að í andaheiminum væri tíminn afstæður, eins og ástin. Þar liðu ár, sem mínútur. Hann sagðist aðeins hafa lagt sig, fengið sér blund og þegar hann hafði vaknað hafði Merlin beðið hans. Það þótti mér skemmtileg tilhugsun. Þá verðum við varla einmana þarna hinum megin, sagði ég. Við náum varla að sakna ástvina okkar áður en við erum sameinuð á ný.

Enn og aftur teygði Móse sig aftur á bak, og ég fékk fiðring í naktan kroppinn og hélt að hann væri að ná í fleiri drykki, en þá birtist hann með tæki sem leit út eins og ryksuga. Grátt með bláum röndum og gulllituðum stjörnum, á hliðinni stóð Streetmaker 3000. Ég skoðaði það með öðru auganu á meðan ég teygði mig í enn einn drykkinn. Þeir sögðust þurfa á mér að halda til að leggja veg að staðnum þar sem athöfnin átti að fara fram. Ég sagði að það yrði nú ekki mikið mál. Þegar þeir þögðu bara og horfðu á mig, með ryksuguna í fanginu skildist mér að ég mætti víst ekki mikinn tíma missa. Svo ég stóð á fætur og leyfði þeim að festa tækið á bakið á mér. Þeir sýndu mér snögglega hvernig það virkaði og sendu mig svo af stað, með aðeins einn bleikan, freyðandi drykk í nesti.

Ég leit tilbaka áður en þeir voru komnir í hvarf og gat ekki annað en huxað með mér að Móse hefði haft gott af því að hafa þessa töfravél í den tiden, það hefði huxanlega stytt 40 ára dvöl hans í eyðimörkinni heilmikið.

Blindfull og blinduð af öllum tímanum í sólinni hélt ég upp á heiði. Nakin með ryksugu fasta á bakinu hófst ég handa við að leggja veg fyrir þessa miklu menn, sem vildu leggja undir sig heiminn.
Við gerðum bara því miður ekki ráð fyrir áfengisþoli mínu, svo vegurinn varð ekki alveg beinn hjá mér og ég er ansi hrædd um að ég hafi farið óravegu frá þessum mikla seiðstað, þar sem athöfnin átti að eiga sér stað. Þegar ég kom svo heim nokkrum vikum seinna, beið mín bréf þar sem þeir þökkuðu mér þó fyrir viðleitnina og fyrir að hafa reynt, en þeir fengju aðeins leyfi til að stíga fæti á jörðina einu sinni á þúsund ára fresti. En better luck next time..-

Lítum á björtu hliðarnar, ég fékk alveg heilmikinn lit á kroppinn og lagði veg yfir Lágheiðina, alveg blindfull og kjagandi.

Það getur ekki hver sem er sagt það.