Saturday, October 31, 2009

7 mínútur í Himnaríki.

Ímyndið ykkur mig með hjálm á hausnum, sitjandi undir eldhúsborðinu til að forðast steina og beitta hluti, og mögulega skítugar nærbuxur sem kastað er í mig. Það eru fá umræðuefni sem hafa jafn mikil áhrif á foreldra, sem og aðra, og það sem ég er að fara að minnast á. Þetta er svona svipað og pólitík og trúmál - hlutir sem þú minnist ekki á í blönduðum félagsskap - því að í staðinn fyrir að vera kölluð heiðingi eða afturhalds kommatittur, verð ég kölluð barnamorðingi, eða jafnvel morðingi saklausra sála.

Kæra Internet, þegar Lilja var um það bil þriggja mánaða - lét ég hana gráta sig í svefn. Hæ, ég heiti Alfa og ég er sálarmorðingi.

Þegar ég sagði frá því, var mér tjáð það að þegar ég dey og stend frammi fyrir Guði muni hann ekki minnast á öll þau skipti sem ég stunda kynlíf utan hjónabands, eða þessi fáu skipti sem ég reykti marijúana og varð svo paranojuð að ég læsti mig inn á baði - því allir vita að löggan leitar aldrei á baðherberginu - eða sú staðreynd að mér finnst Scotty Pippin kynæsandi, nei. Guð mun hrista höfuðið og spyrja mig hvers vegna ég elskaði ekki barnið mitt. Og ég verð dæmd til að deila koju með Boy George, í klefa við hliðina á almenningsklósettinu í Helvíti.

Svefnmálin hjá Lilja voru virkilega flókin. Hún borðaði aldrei almennilega á daginn, en bætti það svo upp á næturnar - með því að vakna á ca 40 mínútna fresti til að drekka. Og hún vissi sko alveg hvað það var sem hún vildi, hún átti það til að öskra, og öskra, og öskra.. og öskra aðeins meira. Að auki, mátti aldrei halda á henni eða hugga hana eða knúsa. Svo það var aldrei spurning um það hvort ég elskaði barnið mitt eða ekki. Ég reyndi allt, nema að setja hana í vöggu og láta hana fljóta niður Glerá með áfastan miða: MUN BÍTA EF ÖGRAÐ.

Svo ég lét hana gráta, og það var fáránlega erfitt, og það er mjög líklegt að ég hafi grátið meira en hún. En þegar það var búið fór hún að sofa í gegnum nóttina - aftur og aftur og aftur. Svo núna ganga hlutirnir vel og ég bíð bara eftir því að hún fari að tala. Og mig grunar að fyrstu orðin hennar verði:

'Afhverju komstu ekki þegar ég grét, mamma?'

'Afþví að mamma elskaði þig ekki, Lilja.'

Núna vill Lilja helst ekki sofa upp í hjá mér, hún er ekki mikið fyrir að kúra og knúsast. Hún gerir mér það sko alveg ljóst. Fyrst var það voða ljúft og ég trúði í einfelndni minni að við myndum kúra tvær saman upp í rúmi þar til Lilja yrði fertug, en svo var hún alveg, veistu mamma.. mér líkar ekki að liggja hérna hjá þér í rúminu þínu sem er alltof stórt. Ég vil fá mitt eigið, takk fyrir.

Svo hún svaf í rúminu sínu við hliðina á mínu, þar sem ég gat strokið henni og kysst hana þegar ég vildi. Hlustað á hana anda og bylta sér. Það gekk í nokkrar vikur, eða þangað til hún tók upp á því að vakna á klukkutíma fresti, standa upp og henda koddanum/snuðinu/bangsanum í mig, sem var hennar leið til að segja. Móðir, nú er kominn tími á að ég fái mitt eigið herbergi. Einnig væri fínt að fá farsíma - og gat í tunguna.

Svo hér erum við, í sínum hvorum enda íbúðarinnar. Knúsumst rétt á morgnana, þegar ég fæ góðfúslegt leyfi frá húsmóðurinni til að strjúka henni og knúsa. 7 mínútum seinna er svo RÆS.

En mikið eru þessar 7 mínútur góðar.

Friday, October 30, 2009

Bannsettir froskarnir.

Fyrir nokkrum vikum síðan, þegar ég var að taka til inn í skáp fann ég eldgamla gúmmí-froskinn sem Lilju var gefinn þegar hún var nýfædd. Hún var svo skelfingu lostin við hann, að ég henti honum ofan í kassa og inn í skáp þar sem hann gleymdist - enda svo sem ekki margt merkilegt við hann. Hann er illa farinn, ljótur og ég er ekki frá því að það sé skrýtin lykt af honum.

Allavega, ég tók froskinn út og henti honum á rúmið á meðan ég þreif skápinn - þar sem ég gleymdi honum svo. Nokkrum dögum seinna rak ég augun í hann þar sem hann lá á gólfinu, við hliðina á rúminu. Já, þið lásuð rétt.. ég sumsé þríf aldrei heima hjá mér! En mér til varnar, fer ég alltaf upp í rúmið sömu megin, og framúr því sömu megin - kenni OCD um það. Mér til mikillar furðu, stökk ég ekki hæð mína af hræðslu og DÓ þegar ég rak augun í kvikindið. Þoli ekki svona gúmmídrasl.

Svo var það einn morguninn ekki löngu seinna, þegar við Lilja lágum upp í rúmi, hálfsofandi að ég missti vitið örlítið. Ég teygði mig í helvítis froskinn og kastaði honum í áttina að Lilju. Afhverju? Afhverju geri ég svona hluti!? Það þarf einhver að grípa inní. Alfa! Hættu að gefa 18 mánaða gömlu barninu þínu ástæður til að vakna upp öskrandi!

Þannig að Lilja FAH-REAKS out. Hún öskrar og skríður næstum því fram úr rúminu, hendir sér á mig og festir sig á handlegginn á mér, eins og ég hafi sveiflað henni yfir laug fullri af hákörlum. Mér auðvitað dauðbrá sjálfri og fór að telja upp þær óteljandi ástæður fyrir því afhverju hún þarf ekki að vera hrædd við kvikindið.

Þetta er gervifroskur, Lilja. Sjáðu, þetta er gúmmí. Þetta er ekki alvöru. Hann finnur ekki til, hann verður ekki dapur. Sjáðu hvernig mamma getur sett allan puttann upp í munninn hans..

Þá fannst mér sniðugt að troða öllum frosknum upp í mig, sem reyndist vera ein sú allra allra versta hugmynd sem ég hef nokkurn tíma fengið. MAMMA, ÞÚ ERT MEÐ FROSK Í MUNNINUM! Ég mátti hafa mig alla við að hrækja útúr mér froskinum og halda í Lilju áður en henni tækist að fleygja sér head first á gólfið og rjúka út.

Ég eyddi svo meiri hluta morgunsins í að sannfæra Lilju um að það væri allt í lagi að snerta bannsettann froskinn. Svo um kvöldið þegar ég var að undirbúa kvöldmatinn, labbar ekki dýrið - Lilja, ekki froskurinn (hann er úr gúmmí) - til mín með kvikindið hálft upp í sér! Svo réttir hún mér hann brosandi, allan löðrandi í slefi - með svip á andlitinu sem getur ekki þýtt annað en: Sjáðu mamma, hvað ég er dugleg.

Wednesday, October 28, 2009

Horfnir eru dagar 'snús' takkans.

Eftir nokkur vandkvæði í byrjun er Lilja komin með nokkuð góða svefnrútínu. Hún er ekki beint fullkomin, þar sem að hún hefur það varla af til klukkan 19 og þá eru batteríin hennar búin. Kapút. Eins og hún hafi verið að læra undir stærðfræðipróf alla nóttina, sofnað fram á stærðfræðibókina, og félagi hennar þurft að líkamlega halda aftur af sér að skrifa ekki LÚSER með svörtum töflutúss þvert yfir ennið á henni.

Ég geri mitt allra besta til að halda henni vakandi til allavega hálf átta, áður en hvorug okkar getur meira. Og hún sofnar nánast sitjandi í rúminu sínu, og lognast loksins útaf.

Ooog þá fer einhver innri vekjaraklukka af stað í hausnum á henni á slaginu 01.30. Stundum 'snúsar' hún og vaknar kl 01.45, en það er sjaldgæft. Þá stekk ég upp, hleyp inn í herbergi til hennar - gef henni vatn að drekka áður en hún vaknar almennilega og heimtar eitthvað meira! Þá loksins sofnar hún aftur til klukkan sex, og þá.. ójá.. hún er vöknuð. Hún er glaðvöknuð og tilbúin í nýjan dag - geltandi skipanir og í rauninni alveg sama um það hve mikið ég þrái, þó ekki sé nema hálftíma í viðbót í svefn.

Síðustu þrjár nætur hefur Lilja komið upp í til mín þegar hún vaknar um 01.30 - vegna þess sem ég get aðeins talið martraðir, eða almenn ónot. Og ég tek hana upp í hálfsofandi og við kúrum til rúmlega sex. Eða, nánar tiltekið.. hún byltir sér og veltir, sparkar í mig og slær og treður tánum upp í nefið á mér ásamt því að liggja með rassinn hálfan ofan á andlitinu á mér. (Kommon, auðvitað ekki allt á sama tíma!) Og ég ligg þarna hálf vakandi, þori varla að hreyfa mig og fyrirlít allar sofandi manneskjur í heiminum.

Svo þarna erum við, klukkan sex að morgni til - Lilja prílandi ofan á mér.. togandi í mig, potandi í mig - kvartandi yfir leiðinlegri og þreyttri mömmu. Ljósið á símanum mínum ekki spennandi lengur, tuskudúkkan hennar sem skrjáfar í er bara fyrir og kremdollan er bara heimskuleg. Vinsamlega kveiktu ljósið og skemmtu mér, þræll!

Svo í morgun þegar ég fálmaði eftir lampanum og við grettum okkar báðar á móti skyndilegri birtunni, huxaði ég: jæja, þetta er lífið mitt núna. Mitt, hver dagur byrjar klukkan sex, líf. Mitt, skemmtu mér eða hlustaðu á mig öskra klukkan sex, líf. Og ég gat ekki annað en hlegið, því að sama hve illa það hljómar - þá er það samt svo yndislega dásamlegt eitthvað.