Saturday, October 31, 2009

7 mínútur í Himnaríki.

Ímyndið ykkur mig með hjálm á hausnum, sitjandi undir eldhúsborðinu til að forðast steina og beitta hluti, og mögulega skítugar nærbuxur sem kastað er í mig. Það eru fá umræðuefni sem hafa jafn mikil áhrif á foreldra, sem og aðra, og það sem ég er að fara að minnast á. Þetta er svona svipað og pólitík og trúmál - hlutir sem þú minnist ekki á í blönduðum félagsskap - því að í staðinn fyrir að vera kölluð heiðingi eða afturhalds kommatittur, verð ég kölluð barnamorðingi, eða jafnvel morðingi saklausra sála.

Kæra Internet, þegar Lilja var um það bil þriggja mánaða - lét ég hana gráta sig í svefn. Hæ, ég heiti Alfa og ég er sálarmorðingi.

Þegar ég sagði frá því, var mér tjáð það að þegar ég dey og stend frammi fyrir Guði muni hann ekki minnast á öll þau skipti sem ég stunda kynlíf utan hjónabands, eða þessi fáu skipti sem ég reykti marijúana og varð svo paranojuð að ég læsti mig inn á baði - því allir vita að löggan leitar aldrei á baðherberginu - eða sú staðreynd að mér finnst Scotty Pippin kynæsandi, nei. Guð mun hrista höfuðið og spyrja mig hvers vegna ég elskaði ekki barnið mitt. Og ég verð dæmd til að deila koju með Boy George, í klefa við hliðina á almenningsklósettinu í Helvíti.

Svefnmálin hjá Lilja voru virkilega flókin. Hún borðaði aldrei almennilega á daginn, en bætti það svo upp á næturnar - með því að vakna á ca 40 mínútna fresti til að drekka. Og hún vissi sko alveg hvað það var sem hún vildi, hún átti það til að öskra, og öskra, og öskra.. og öskra aðeins meira. Að auki, mátti aldrei halda á henni eða hugga hana eða knúsa. Svo það var aldrei spurning um það hvort ég elskaði barnið mitt eða ekki. Ég reyndi allt, nema að setja hana í vöggu og láta hana fljóta niður Glerá með áfastan miða: MUN BÍTA EF ÖGRAÐ.

Svo ég lét hana gráta, og það var fáránlega erfitt, og það er mjög líklegt að ég hafi grátið meira en hún. En þegar það var búið fór hún að sofa í gegnum nóttina - aftur og aftur og aftur. Svo núna ganga hlutirnir vel og ég bíð bara eftir því að hún fari að tala. Og mig grunar að fyrstu orðin hennar verði:

'Afhverju komstu ekki þegar ég grét, mamma?'

'Afþví að mamma elskaði þig ekki, Lilja.'

Núna vill Lilja helst ekki sofa upp í hjá mér, hún er ekki mikið fyrir að kúra og knúsast. Hún gerir mér það sko alveg ljóst. Fyrst var það voða ljúft og ég trúði í einfelndni minni að við myndum kúra tvær saman upp í rúmi þar til Lilja yrði fertug, en svo var hún alveg, veistu mamma.. mér líkar ekki að liggja hérna hjá þér í rúminu þínu sem er alltof stórt. Ég vil fá mitt eigið, takk fyrir.

Svo hún svaf í rúminu sínu við hliðina á mínu, þar sem ég gat strokið henni og kysst hana þegar ég vildi. Hlustað á hana anda og bylta sér. Það gekk í nokkrar vikur, eða þangað til hún tók upp á því að vakna á klukkutíma fresti, standa upp og henda koddanum/snuðinu/bangsanum í mig, sem var hennar leið til að segja. Móðir, nú er kominn tími á að ég fái mitt eigið herbergi. Einnig væri fínt að fá farsíma - og gat í tunguna.

Svo hér erum við, í sínum hvorum enda íbúðarinnar. Knúsumst rétt á morgnana, þegar ég fæ góðfúslegt leyfi frá húsmóðurinni til að strjúka henni og knúsa. 7 mínútum seinna er svo RÆS.

En mikið eru þessar 7 mínútur góðar.

No comments: