Tuesday, December 05, 2006

Öðruvísi dagar..-

Huh.. dagurinn í dag og dagurinn í gær voru öðruvísi. Ekki endilega öðruvísi en dagarnir þar á undan, eða dagarnir sem eru handan við hornið, en samt öðruvísi. Ég á í skrýtnu sambandi við sjálfa mig þessa dagana. Pínulítið svona haltu mér/slepptu mér sambandi, sem allajafna væri fullkomlega eðlilegt fyrir manneskju eins og mig, en þegar ég og aðeins ég á í hlut, þá ruglast kerfið og mig vantar jafnvægi. Mér finnst ég vera eftir á, einu skrefi á eftir. Ohh, ég þoli ekki að kunna ekki reglurnar!

Ég man ennþá daginn eins og hann hafi verið í gær, hann var öðruvísi. Hann var öðruvísi afþví að þetta var dagurinn sem ég dó. Kannski ýkti ég örlítið, því ég man tilfinninguna og atburðarrásina skýrt, en annað er eins og í móðu. Ég man sársaukann, en finn hann ekki lengur. Ég man skelfinguna, en aðeins sem óljósa minningu.

Ég var á leiðinni eitthvert, ég reyni eins og get að muna það, á hverjum degi.. en það eina sem ég man er tilhlökkun. Ég held ég hafi verið að fylgja hjartanu. Krókaleiðir örugglega.
Þegar maður áttar sig á því að stundin sé komin, að nú sé lífið að enda, þá er eins og allt stoppi. Ég upplifði síðustu sekúndurnar eins og klukkustundir. Ég horfði á bílinn keyra í áttina að mér, hægt. Ég huxaðu um mömmu, sem ég hafði ekki talað við í fleiri daga. Sársaukinn byrjaði þar, innra með mér. Söknuðurinn varð svo sár að ég óskaði þess að tíminn liði hraðar og að bíllinn keyrði mig niður samstundis. Ég huxaði til systra minna, og það rifjuðust upp fyrir mér gamlar minningar sem voru að ég hélt löngu horfnar. Þegar mamma var ólétt að Amöndu, og við Hulda rifumst um það hvor okkar ætti meira í henni. Þegar við ákváðum að þegar við yrðum stórar skildum við allar búa saman í stóru húsi með sundlaug og "plat-kærustum".

Ég lokaði augunum og bað til Guðs um að enda kvölina, sleppa af mér takinu. Ég féll á hnén og horfðist í augu við eigin skelfingu þegar bílljósin skinu beint í augun á mér. Ég huxaði með skömm til þess að ég hafði ekki tekið til heima, nú þyrfti einhver að fara í gegnum draslið mitt og óhreina þvottinn. Rúmið var óumbúið. Skítugt leirtau í vaskinum.

Loksins, loksins, heyrði ég ískrið í dekkjunum og öskrin í vegfarendum. Ég velti því fyrir mér afhverju enginn hafði stokkið til hjálpar, afhverju enginn hafði rifið mig uppúr doðanum sem hélt mér fanginni- fastri í tímaleysi.

Ég fann strax fyrir frelsinu, ég sveif upp frá líkamanum og horfði niður á eigin sjálf. Bílstjórinn sat ennþá stjarfur inn í bílnum, eldri maður sem hafði aldrei lent í minnsta tjóni áður. Hann var nýbúinn að missa konuna sína úr krabbameini og var á leið heim frá því að vitja hennar í kirkjugarðinum. Hann átti einn son, sem var búsettur erlendis með eiginmanni sínum. Þeir höfðu ekki talað saman í tæp tíu ár, eða ekki frá því að sonur hans játaði fyrir honum að hann væri samkynhneigður. Ég veit ekki hvernig ég vissi þetta, en upplýsingaflæðið var svo mikið að mig verkjaði í hausinn. Þrátt fyrir allar huxanirnar, allar samhengislausu huxanirnar var ein sem var þeim öllum yfirsterkari- mamma.

Skyndilega var eins og rifið í mig, ég gaf frá mér óp og reyndi að berjast á móti en það var ekkert sem ég gat gert. Það síðasta sem ég sá, var gamli maðurinn grátandi með blóði drifinn líkama minn í fanginu. Ég fann svo ótrúlega, ótrúlega mikið til með honum. Ég teygði fram hendina í lélegri tilraun til að taka sorg hans og eftirsjá með mér. Eitt augnablik fannst mér hann horfa beint á mig. Í undrun hætti ég að berjast á móti þessu afli sem togaði í mig og leyfði mér að fljóta.

Ég fann vindana blása, en fann ekki til kulda. Ég sá tré og fjöll þjóta framhjá, en í stað ótta fann ég til gleði. Þegar hægði á, sá ég að ég var komin heim til mömmu, kannski er það rétt sem sagt er að hugurinn beri mann hálfa leið? Söknuðurinn og þráin eftir henni var dauðanum sterkari og hugurinn flutti mig til hennar. Aðeins mínútu eftir að hjartað mitt hætti að slá var ég komin inn í eldhús til mömmu. Ég fylgdist með henni hella sér kaffi í bolla og snúa sér hægt við. Hún starði lengi í áttina að mér, blikkaði ekki. Ég fylgdist með henni fölna upp áður en hún sleppti takinu á bollanum sem brotnaði í mél á gólfinu. Það voru kaffislettur útum allt, en henni virtist sama. Hún greip um brjóstið á sér og barðist við að ná andanum.

Ég hljóp til hennar og reyndi að segja henni að það væri allt í lagi með mig, en hún hvorki heyrði í mér né sá. Ég strauk henni um vangann, en hún hryllti sig eins og skyndilegur kuldi hefði breitt um sig innra með henni. Hún lét sig falla á stól og starði fram fyrir sig í þögn. Ég kraup við hliðina á henni og hvíldi höfuðið í kjöltunni á henni, en hún fann það ekki. Ég fann hana ekki. Ég fann ekki hlýjuna.

Söknuðurinn var verri en nokkurn tíma. Ég reyndi að hrópa á hana, ég sló til hennar til að athuga hvort hún finndi ekki fyrir mér. Ekkert.
Í öskraði í örvæntingu. Fannst brjóstið rifna. Myndi ég aldrei aftur finna hlýju? Skyndilega var mér kalt. Ég var tóm og ein. Ég grét, en það runnu engin tár.
Ég fylgdist með mömmu taka upp símann þegar hann hringdi, hún var róleg, eins og hún vissi hverjar fréttirnar voru sem henni voru færðar. Hún þagði og lagði hljóðlega frá sér símann.
Mig langaði ekkert meira en að strjúka tárin hennar burt, taka utan um hana og segja henni allt sem ég átti eftir.

En ég átti ekkert eftir. Það var búið. Lífið var búið. Þetta var endirinn, minn endir.
En þetta var aðeins byrjunin á öðru lífi. Öðruvísi lífi.

Dauðinn er aðeins ferðalag.