Friday, December 21, 2007

pakkar..

Vitiði hvað er leiðinlegt við að vaka til þrjú við að pakka inn gjöfum?

... það er að þurfa að pakka þeim inn tvisvar vegna þess að kisinn þinn rífur þá alltaf upp.

En tilfinningin sem fylgir því að vera búin að öllu fyrir jólin er yndisleg! Að finna loksins tíma til að eyða með makanum er ómetanlegt. Það er nefnilega ekkert gaman að sakna manneskjunnar sem þú býrð með! Ætla sko ekki að sakna neitt um jólin!

Nú er föstudagur. Það er helgi. Á mánudaginn, eftir helgi, koma jólin.

En spennandi.

Jólin mín.

Ég næ ekki andanum fyrir tilhlökkun. Ég lít á klukkuna á þriggja mínútna fresti og reyni að plata hugann. Segi mér að líta ekki á klukkuna næstu fimmtán mínúturnar.. það gengur ekki eftir.

Ég stend fyrir framan spegilinn inn á baði hjá mömmu og pabba, komin í jólafötin. Ég mála mig og greiði mér og reikna með að klukkan hljóti nú alveg að fara að verða.

Rölti inn í eldhús þar sem pabbi er að hræra í stöppuna, næli mér í laufabrauðssneið og gjói augunum á klukkuna. Vonbrigðin snúa maganum á hvolf, hún er ennþá bara fimmtán mínútur yfir fimm! Í staðinn fyrir að pirrast ákveð ég að rölta inn í herbergi, sem er lokað. Þegar ég gríp í hurðarhúninn er hótunum um líkamsmeiðingar fleygt að mér. Sennilega Hulda systir að pakka inn á síðustu stundu.

Jæja, yppi öxlum og ákveð þess í stað að finna bara hina systur mína, hún er nú svo róleg á því. Rölti að tölvuherberginu, sem einnig er lokað. Ég hika þegar ég legg höndina á húninn, og ákveð að banka frekar. Formælingar taka á móti mér. Skrambinn, Amanda er líka á síðasta snúningi að pakka inn.

Jæja, get allt eins vel hrist pakkana undir trénu enn einu sinni. Ég næ ekki að tylla mér við tréð áður en pabbi kemur í fússi og biður mig um að klára að pakka inn gjöfinni handa mömmu fyrir sig. Ég andvarpa, enda er ég með eindæmum slæm í innpökkun. Mínir pakkar eru í það minnsta vel auðþekkjanlegir undir trénu. Þar sem pabbi stendur með svuntuna fyrir framan mig, að klára að elda og leggja á borð, get ég nú varla með góðri samvisku sagt honum að gera það sjálfum?!

Ég næ mér í pappír, skæri og límband og finn gjöfina hennar mömmu. Hvað skyldi gamli gefa henni í ár? Ég loka mig inn í hjónaherbergi þar sem hin herbergin eru upptekin. Áður en ég næ að byrja kemur mamma úr sturtu og veður inn í herbergi. Ég fleygi sænginni í ofboði ofan á óinnpakkaða gjöfina og hreyti í mömmu að það sé almenn kurteisi að banka!

Hálf áttavillt bakkar hún útúr sínu eigin herbergi í baðslopp einum fata.

Loksins eru allar gjafir komnar á sinn stað, undir trénu og ég get haldið áfram mínum árlega dansi - þ.e. að hrista alla pakka vel og vandlega og skilja eftir mandarínubörk útum allt hús.

Skyndilega heyrist urr frá baðherberginu, um stund legg ég við eyrun og á allt eins von á því að jólakötturinn komi hlaupandi út, en í stað þess skröltir undurfagra litla systir mín fram með tárin í augunum. Hárið lét ekki að stjórn. Ég fullvissa hana um það að hún líti afar vel út. Sný mér svo við og fullvissa eldri systur mína um hið sama.

Þá rölti ég loksins inn í eldhús aftur og lít á klukkuna - nohh! Hún er tíu mínútur í!

Ég sé að hangikjötið og með því er komið á borðið og pabbi er að klára að klæða sig. Jæja, þá bý ég mig undir lengstu tíu mínútur lífs míns. Við ráfum um ganginn, gjóum augun á hvort annað og klukkuna til skiptis áður en loksins, loksins loksins klukkurnar hringja jólin inn! Þá stöndum við saman fyrir framan útvarpið, öll í einum hnapp með bjánalegt bros á vörum og hlustum á jólabjöllurnar. Þegar þulan loksins býður gleðileg jól kyssumst við og föðmumst og yfir okkur kemur óvenjuleg ró sem við þekkjum annars ekki.

Uppáhaldstíminn er kominn. Við setjumst við borðið og mokum á diskana. Jólamaturinn er sá besti í heimi. Ég brosi eins og bjáni allan tímann og nýt friðarins yfir borðum. Við systur rífum svo alla diska af borðum og vöskum upp, eins og við höfum gert síðan ég man eftir mér. Engum er gefið færi á eftirrétti - þeir fá illt auga frá mér.

Pabbi stingur síðasta bitanum upp í sig á meðan ég held á disknum hans og bið hann fallega um að tyggja hraðar.

Að loknu uppvaski hlaupum við inn i stofu þar sem hver velur sér 'pakkasæti'. Loksins er Amanda send nauðug viljug til að lesa á pakkana og afhenda þá. Þetta var skylda Huldu þegar hún var yngri, um leið og ég varð læs tók ég við og að lokum Amanda. Börnin urðu víst ekki fleiri hjá foreldrum mínum svo örverpið situr uppi með pakkalesturinn.

Loksins! Ég get opnað pakka!

....tuttugu mínútum seinna eru allir pakkar opnaðar, jólapappírinn þekur stofugólfið og allir eru í sínum heimi að skoða gjafirnar. Mamma og pabbi skríða í ból um níu leytið, uppgefin. Við systurnar tökum eitt, tvö spil og finnum okkur svo horn til að skríða í með jólabækurnar. Uppáhalds hefðin mín er ábyggilega sú að við fáum alltaf bók frá mömmu og pabba. Ég elska bækur!

Þegar nóttin færist nær kúrum við í sófanum með nammi, afgangs kjöt og laufabrauð og horfum á mynd. Svona eru jólin mín.

Monday, December 17, 2007

Merkilegt..-

Hver man ekki eftir þvi þegar að drukkinn unglingur stal tveimur bílum einn heitan sumarmorgun á Akureyri fyrir nokkrum árum? Annan keyrði hann niður kirkjutröppurnar en á hinum fór hann í torfærur og festi bílinn rækilega ofan í skurði, úti í móa. Ég man það. Enda var það bíllinn minn sem fékk slíka höfðingjans meðferð.

Þetta var á sunnudagsmorgni sem ég vaknaði óvenju snemma, átti að mæta í vinnu um tíu leytið og átti fyrir höndum u.þ.b 13 tíma vinnudag. Ég leit útum gluggann og sá að sólin skein skært og ákvað með sjálfri mér að ég skildi labba í vinnuna í dag! Litli rauði dæjarinn minn fengi einn hvíldardag, enda sunnudagur. Þegar ég kom út, hækkaði ég í tónlistinni í eyrunum og gekk af stað. Þremur skrefum seinna snarstoppaði ég og sneri mér við, ég leit yfir bílastæðið og sá hvergi bílinn minn! Huh.. kannski lagði ég honum bakvið hús?

Ég gekk rólega hringinn í kringum bygginguna en sá hvergi bílinn minn. Ég stoppaði við og tyllti mér á girðinguna á meðan ég braut heilann um það hvar ég hefði mögulega getað lagt bílnum.. er ég svona gleymin!?

Ég leit á klukkuna og sá að ég var að verða of sein í vinnuna, svo ég lagði af stað og tók hikandi upp símann. Eftir að hafa slegið inn númerið hjá lögreglunni á Akureyri gat ég varla haldið aftur af móðursýkishlátrinum. Þegar lögregluþjónninn svaraði kom löng þögn áður en ég kynnti mig.

'Já... sæll, Alfa heiti ég og.. ég held.. ég held.. jú veistu, ég held að bílnum mínum hafi verið stolið í nótt!'

'Jahá! Þú ert sumsé ekki viss..?'

Eftir nokkra mínútna vandræðalegar útskýringar, eins og til dæmis þær að ég byggi niðri í miðbæ, og jújú vissulega var bíllinn ólæstur.. og jú, það er rétt.. lyklarnir voru í honum. Hvar? Nú í svissinum! Sögðust þeir láta mig vita ef þeir heyrðu eitthvað. Búið.

Ég mætti í vinnuna allsendis róleg og stóð mína plikt.. skyndilega rann það upp fyrir mér að allt tónlistarsafnið mitt var í bílnum, jú og fartölvan mín! Huh, ég hringdi aftur í lögregluna til að fá að fylgjast með framgangi mála - engar fréttir.

Vinnudagurinn hélt áfram. Um kaffileytið stend ég og gef skipanir, svona eins og mér ferst best úr hendi þegar ég frýs! Ég varð gjörsamlega stjörf og kom ekki uppúr mér orði. Starfsfólkið horfði á mig í undrun og skildi hvorki upp né niður. Ég rauk á bakvið til að hringja aftur í lögregluna, og núna lét ég mér ekki nægja að hringja einu sinni, nei ég hringdi þrisvar og gæti hafa verið afar dónaleg..

Ég mundi nefnilega eftir því að í hansahólfinu voru ekki einungis geisladiskar og snyrtidót.. nei, heldur nektarmyndir af mér! Hver skilur nektarmyndir af sjálfum sér eftir í ólæstum bíl! Í huganum fór ég yfir skelfinguna og auðmýkinguna þegar foreldrar mínir sæju dóttur sína í ankannalegum stellingum á netinu! Systur mínar myndu afneita mér og ég fengi ekki stundlegan frið í vinnunni.. guð, ekki gætu þeir rekið mig fyrir þetta!?

Allan daginn beið ég með öndina í hálsinum, ekki yfir bílnum, ekki yfir tölvunni, ekki yfir fötunum mínum sem voru í skottinu, nei.. helvítis nektarmyndunum!

Skemmst frá því að segja að bíllinn fannst, þreyttur og úr sér genginn.. hálf bugaður og beyglaður en heill. Ég gat ekki beðið eftir að klára vaktina til að komast að ná í hann. Ég fékk lyklana í hendurnar ásamt predikun yfir ólæstum bíl, og rauk út til að ath hanskahólfið.

Ég keyrði heim, steig útúr bílnum, tók upp kveikjara og brenndi myndirnar! Aldrei aftu, lofaði ég sjálfri mér.

Viku seinna kom ég við í vinnunni og dvaldist eitthvað örlítið lengur en ég ætlaði, þegar út kom var bíllinn horfinn! Aftur! Ég skildi lyklana eftir í bílnum.. aftur! Ólæstur, með lyklana í svissinum.. skamm!

Ég rauk inn með tárin í augunum og tók upp símann, treg þó. Hvað átti ég að segja við lögguna? Þeir myndu ábyggilega ekki einu sinni koma! Þá varð mér litið framan í strákskrattana sem ég vann með.. þar sem þeir stóðu og góndu á mig og glott á vörum.

Þeir höfðu aldeilis ákveðið að kenna stelpunni lexíu- jájá, ég lærði!

Vissilega er bíllinn oft ólæstur, en skil lyklana sjaldan eftir í honum og aldrei í svissinum! Nei, ég er séð og geymi þá á milli sætanna! Svo bý ég heldur ekki lengur í miðbænum, en þar þrífst víst glæpalýðurinn best.

Vinir eru vissulega til að kenna manni að batnandi manni er best að lifa.

Wednesday, December 12, 2007

Jólaskór..

Í morgun þegar ég vaknaði beið mín gjöf frá Stekkjastaur félaga mínum!

Ekki aðeins var það merkilegt fyrir þær sakir einar að ég setti hreinlega skóinn (reyndar hvítt gellustígvél sem ég var búin að gleyma að ég ætti!) ekkert út í glugga í gær, heldur fékk ég líka uppáhalds súkkulaðið mitt; maltesers!

Á vissan hátt vekur það þó hjá mér óhug.. í fyrsta lagi er ég ennþá skráð hjá ma og pa svo hvernig gat hann sér þess til að ég væri íbúi í ákveðinni íbúð, á ákveðinni hæð, í ákveðnu húsi á Akureyri? Og í öðru lagi.. hvernig vissi hann á hvaða súkkulaði ég hef slíkt dálæti!?

En Lúlli fékk því miður ekkert, og þegar ég sýndi samhug minn í morgun og vorkunn yfir tómum skónum hans (sem þó var enn í forstofunni..) hló hann og sagði að hann hefði rætt við jólasveininn og þeir hefðu ákveðið að jólabarnið á heimilinu ætti skilið að fá góðgæti í skóinn.

En hver veit, kannski launar jólasveinninn yndislega manninum mínum þolinmæðina og fallegt hjartalag í kvöld?

Þ.e.a.s ef hann fer góður að sofa.

Wednesday, December 05, 2007

19 dagar.

Í dag eru 19 dagar til jóla.

Dagurinn í dag er alveg á topp 100 yfir bestu daga ársins hjá mér.. ;) Bestu vinir í heimi eiga þar stóran hlut í sem og yndisleg systir. Ég vil taka sporið!

Ég hlakka svoo mikið til jólanna að ég næ varla andanum! Úff... hangikjöt og laufabrauð! Pakkar! Ójá, pakkar! Þeir fylgja..

Jólin!