Wednesday, March 26, 2008

Hrmph!

'Ég elska þig..' hvíslaði ég hljóðlega að hnakka makans þar sem við lágum hálfsofandi. Ég tók fastar utan um hann og lagði varirnar ástúðlega að bakinu hans.

'Ég elska þig líka.. ofboðslega mikið!' svaraði hann og dró mig nær sér og kyssti lófann minn, svona eins og mér finnst svo gott. 'Og ég er svo stoltur af þér!'
'Stoltur?' Spurði ég kjánalega með lokuð augun, milli svefns og vöku. 'Hvers vegna?!'
'... bara, þú ert ólétt!' Svaraði hann eðlilega.
'Elskan mín, það var nú auðveldi parturinn sjáðu til..' ég hló.

'.. nei bara, þú ert búin að standa þig svo vel! Og ert bara nýlega orðin svona erfið...'

Hrmph! Auðvitað er ég erfið! Ég sef ekki dúr. Þætti gaman að sjá hann reyta af sér brandarana ef hann væri jafn breiður um sig og ég er núna, vakna í hvert skipti sem hann þarf að snúa sér, sem gerist oft vegna þess að hann er auðvitað að drepast í bakinu og grindinni líka! Svo vaknar hann auðvitað líka til að pissa, svona um það bil einu sinni á klukkutíma líka.. já, og brjóstsviðinn er auðvitað bara til að hlægja að og hann myndi sennilega sofa hálfsitjandi bara að gamni sínu!

Í þokkabót væri hann með flensu í dag, og alveg síðan á páskadag! Svo að ekki nóg með allt þetta, heldur myndi hann varla ná að festa svefn fyrir hósta og hori.

Stoltur af mér?! Jahá! Hann má sko vera stoltur af mér!

Saturday, March 08, 2008

Öpdeit.

Ég er á lífi. Bara afar ólétt og upptekin. En það styttist í púkann.

Ég er glöð og hamingjusöm. Ég er þreytt. Ég sakna ykkar.

Bara tæpar þrjár vikur í fæðingarorlof - þá lofa ég að skrifa meira og gefa mér meiri tíma fyrir vinina mína sem ég veit að ég er búin að vanrækja! Ég veit að það er ekki nóg að segja bara 'fyrirgefðu'.. en orkan mín þessa dagana fer öll í að hanga upprétt.

Ekki gefast upp á mér strax.