Monday, January 07, 2008

Hjartað mitt..-

Ég er sennilega sú fyrsta til að segja að magapúkinn minn hafi verið allt annað en fyrirfram ákveðinn. Ég vildi hann reyndar bara alls ekki. Hann var ekki á tímatöflunni minni, ekki núna og ekki á næstunni. Hann þvældist fyrir námi, ferðalögum og leik.

Það var síðast um það bil sex mánuðum áður en ég komst að því að ég væri með hálfa sæðisfrumu og hálfa halakörtu inn í mér sem ég lofaði móður minni því að sennilega myndi mannkyninu fjölga, en aldrei með minni hjálp. Ég ætlaði aldrei, aldrei að eignast börn.

Daginn sem mig grunaði að ekki væri allt með felldu var 10. ágúst. Ég vaknaði eldsnemma, makinn var enn í vinnu, á næturvakt, og ég hringdi í hann og sendi hann í 10-11 eftir óléttuprufu. Örugglega ekki hans skemmtilegasta verkefni. Þegar hann skreið dauðþreyttur heim um hálf sjö um morguninn, reif ég mig framúr og í sennilega fyrsta skipti átti ég í vandræðum með að kasta vatni. Ég var varla staðin upp af salerninu áður en afar skýr lína birtist. Ég skoðaði hana vel áður en ég fleygði henni í ruslið og skreið upp í rúm aftur, og hjúfraði mig upp að hlýjum sofandi líkama. Já, hann sofnaði á meðan.

Án þess að hafa komið dúr á auga velti ég mér framúr um leið og skrifstofan hjá kvennsa opnaði og pantaði tíma. Hann átti laust í vikunni á eftir. Ég kreisti símtólið og sagði honum að ég þyrfti nauðsynlega að komast að í dag! Í dag!

Hann tróð mér að á milli tíma. Ég fékk makann til að keyra mig, en vildi alls ekki fá hann með inn. Því beið hann milli vonar og ótta í bílnum á meðan.

Læknirinn setti mig strax í snemmsónar og tilkynnti mér svo að vissulega væri ég ólétt.
'Hversu ólétt?' spurði ég.
'Eins mikið og þú verður.' var hans bjánalega svar.

Þegar hann óskaði mér til hamingju, andvarpaði ég bara og reyndi eins og ég gat að fara ekki að skæla. Og þegar hann spurði mig hvort þetta væri gott eða slæmt, svaraði ég eins og var að ég væri ekki búin að gera upp hug minn.

Ég settist upp í bíl og án þess að segja orð rétti ég makanum myndirnar af halakörtunni. Hann sagði sem betur fer ekki neitt, tók bara utan um mig og keyrði svo af stað. Þegar hann fór í vinnuna um kvöldið, skældi ég eins og litla barnið sem mér finnst ég ennþá vera.

Ég sofnaði þá nótt með allskonar ruglingslegar huxanir í hausnum. Hló og grét til skiptis. Var svo vakin undurblíðlega um 7 leytið um morguninn. Þá skreið makinn ískaldur undir sængina og kyssti mig ofurblítt. Við töluðum saman þar til við sofnuðum samanvafin, og uppfrá því vorum við þrjú.

Ég hef svo ótal ótal mörgum sinnum fengið efakast og eftirsjá. Hvernig get ég orðið foreldri!?
Margoft hef ég velt því fyrir mér hvort ég sé að gera mistök.

Ég hef argast út í óléttuna, finnst hún ekki gera mér neitt gott. Og reyndar hef ég undanfarna mánuði oftar en ekki hreinlega reynt bara að gleyma þessu öllu saman.

Þar til í fyrrinótt, við þurftum að fara upp á fæðingardeild vegna verkja og mögulegra samdrátta og annars óskemmtilegs. Ég varð dauðhrædd! Huxaði allan tímann - það eru tveir mánuðir eftir, það eru tveir mánuðir eftir, það eru tveir mánuðir eftir..

Þar sem ég ligg hérna, stend ég mig stöðugt að því að strjúka magann.. strjúka litlu stelpunni minni og bið hana bara um að halda sér aðeins lengur, bara aðeins lengur.. áður en hún kemur í mömmufang.