Friday, December 21, 2007

Jólin mín.

Ég næ ekki andanum fyrir tilhlökkun. Ég lít á klukkuna á þriggja mínútna fresti og reyni að plata hugann. Segi mér að líta ekki á klukkuna næstu fimmtán mínúturnar.. það gengur ekki eftir.

Ég stend fyrir framan spegilinn inn á baði hjá mömmu og pabba, komin í jólafötin. Ég mála mig og greiði mér og reikna með að klukkan hljóti nú alveg að fara að verða.

Rölti inn í eldhús þar sem pabbi er að hræra í stöppuna, næli mér í laufabrauðssneið og gjói augunum á klukkuna. Vonbrigðin snúa maganum á hvolf, hún er ennþá bara fimmtán mínútur yfir fimm! Í staðinn fyrir að pirrast ákveð ég að rölta inn í herbergi, sem er lokað. Þegar ég gríp í hurðarhúninn er hótunum um líkamsmeiðingar fleygt að mér. Sennilega Hulda systir að pakka inn á síðustu stundu.

Jæja, yppi öxlum og ákveð þess í stað að finna bara hina systur mína, hún er nú svo róleg á því. Rölti að tölvuherberginu, sem einnig er lokað. Ég hika þegar ég legg höndina á húninn, og ákveð að banka frekar. Formælingar taka á móti mér. Skrambinn, Amanda er líka á síðasta snúningi að pakka inn.

Jæja, get allt eins vel hrist pakkana undir trénu enn einu sinni. Ég næ ekki að tylla mér við tréð áður en pabbi kemur í fússi og biður mig um að klára að pakka inn gjöfinni handa mömmu fyrir sig. Ég andvarpa, enda er ég með eindæmum slæm í innpökkun. Mínir pakkar eru í það minnsta vel auðþekkjanlegir undir trénu. Þar sem pabbi stendur með svuntuna fyrir framan mig, að klára að elda og leggja á borð, get ég nú varla með góðri samvisku sagt honum að gera það sjálfum?!

Ég næ mér í pappír, skæri og límband og finn gjöfina hennar mömmu. Hvað skyldi gamli gefa henni í ár? Ég loka mig inn í hjónaherbergi þar sem hin herbergin eru upptekin. Áður en ég næ að byrja kemur mamma úr sturtu og veður inn í herbergi. Ég fleygi sænginni í ofboði ofan á óinnpakkaða gjöfina og hreyti í mömmu að það sé almenn kurteisi að banka!

Hálf áttavillt bakkar hún útúr sínu eigin herbergi í baðslopp einum fata.

Loksins eru allar gjafir komnar á sinn stað, undir trénu og ég get haldið áfram mínum árlega dansi - þ.e. að hrista alla pakka vel og vandlega og skilja eftir mandarínubörk útum allt hús.

Skyndilega heyrist urr frá baðherberginu, um stund legg ég við eyrun og á allt eins von á því að jólakötturinn komi hlaupandi út, en í stað þess skröltir undurfagra litla systir mín fram með tárin í augunum. Hárið lét ekki að stjórn. Ég fullvissa hana um það að hún líti afar vel út. Sný mér svo við og fullvissa eldri systur mína um hið sama.

Þá rölti ég loksins inn í eldhús aftur og lít á klukkuna - nohh! Hún er tíu mínútur í!

Ég sé að hangikjötið og með því er komið á borðið og pabbi er að klára að klæða sig. Jæja, þá bý ég mig undir lengstu tíu mínútur lífs míns. Við ráfum um ganginn, gjóum augun á hvort annað og klukkuna til skiptis áður en loksins, loksins loksins klukkurnar hringja jólin inn! Þá stöndum við saman fyrir framan útvarpið, öll í einum hnapp með bjánalegt bros á vörum og hlustum á jólabjöllurnar. Þegar þulan loksins býður gleðileg jól kyssumst við og föðmumst og yfir okkur kemur óvenjuleg ró sem við þekkjum annars ekki.

Uppáhaldstíminn er kominn. Við setjumst við borðið og mokum á diskana. Jólamaturinn er sá besti í heimi. Ég brosi eins og bjáni allan tímann og nýt friðarins yfir borðum. Við systur rífum svo alla diska af borðum og vöskum upp, eins og við höfum gert síðan ég man eftir mér. Engum er gefið færi á eftirrétti - þeir fá illt auga frá mér.

Pabbi stingur síðasta bitanum upp í sig á meðan ég held á disknum hans og bið hann fallega um að tyggja hraðar.

Að loknu uppvaski hlaupum við inn i stofu þar sem hver velur sér 'pakkasæti'. Loksins er Amanda send nauðug viljug til að lesa á pakkana og afhenda þá. Þetta var skylda Huldu þegar hún var yngri, um leið og ég varð læs tók ég við og að lokum Amanda. Börnin urðu víst ekki fleiri hjá foreldrum mínum svo örverpið situr uppi með pakkalesturinn.

Loksins! Ég get opnað pakka!

....tuttugu mínútum seinna eru allir pakkar opnaðar, jólapappírinn þekur stofugólfið og allir eru í sínum heimi að skoða gjafirnar. Mamma og pabbi skríða í ból um níu leytið, uppgefin. Við systurnar tökum eitt, tvö spil og finnum okkur svo horn til að skríða í með jólabækurnar. Uppáhalds hefðin mín er ábyggilega sú að við fáum alltaf bók frá mömmu og pabba. Ég elska bækur!

Þegar nóttin færist nær kúrum við í sófanum með nammi, afgangs kjöt og laufabrauð og horfum á mynd. Svona eru jólin mín.

No comments: