Monday, December 17, 2007

Merkilegt..-

Hver man ekki eftir þvi þegar að drukkinn unglingur stal tveimur bílum einn heitan sumarmorgun á Akureyri fyrir nokkrum árum? Annan keyrði hann niður kirkjutröppurnar en á hinum fór hann í torfærur og festi bílinn rækilega ofan í skurði, úti í móa. Ég man það. Enda var það bíllinn minn sem fékk slíka höfðingjans meðferð.

Þetta var á sunnudagsmorgni sem ég vaknaði óvenju snemma, átti að mæta í vinnu um tíu leytið og átti fyrir höndum u.þ.b 13 tíma vinnudag. Ég leit útum gluggann og sá að sólin skein skært og ákvað með sjálfri mér að ég skildi labba í vinnuna í dag! Litli rauði dæjarinn minn fengi einn hvíldardag, enda sunnudagur. Þegar ég kom út, hækkaði ég í tónlistinni í eyrunum og gekk af stað. Þremur skrefum seinna snarstoppaði ég og sneri mér við, ég leit yfir bílastæðið og sá hvergi bílinn minn! Huh.. kannski lagði ég honum bakvið hús?

Ég gekk rólega hringinn í kringum bygginguna en sá hvergi bílinn minn. Ég stoppaði við og tyllti mér á girðinguna á meðan ég braut heilann um það hvar ég hefði mögulega getað lagt bílnum.. er ég svona gleymin!?

Ég leit á klukkuna og sá að ég var að verða of sein í vinnuna, svo ég lagði af stað og tók hikandi upp símann. Eftir að hafa slegið inn númerið hjá lögreglunni á Akureyri gat ég varla haldið aftur af móðursýkishlátrinum. Þegar lögregluþjónninn svaraði kom löng þögn áður en ég kynnti mig.

'Já... sæll, Alfa heiti ég og.. ég held.. ég held.. jú veistu, ég held að bílnum mínum hafi verið stolið í nótt!'

'Jahá! Þú ert sumsé ekki viss..?'

Eftir nokkra mínútna vandræðalegar útskýringar, eins og til dæmis þær að ég byggi niðri í miðbæ, og jújú vissulega var bíllinn ólæstur.. og jú, það er rétt.. lyklarnir voru í honum. Hvar? Nú í svissinum! Sögðust þeir láta mig vita ef þeir heyrðu eitthvað. Búið.

Ég mætti í vinnuna allsendis róleg og stóð mína plikt.. skyndilega rann það upp fyrir mér að allt tónlistarsafnið mitt var í bílnum, jú og fartölvan mín! Huh, ég hringdi aftur í lögregluna til að fá að fylgjast með framgangi mála - engar fréttir.

Vinnudagurinn hélt áfram. Um kaffileytið stend ég og gef skipanir, svona eins og mér ferst best úr hendi þegar ég frýs! Ég varð gjörsamlega stjörf og kom ekki uppúr mér orði. Starfsfólkið horfði á mig í undrun og skildi hvorki upp né niður. Ég rauk á bakvið til að hringja aftur í lögregluna, og núna lét ég mér ekki nægja að hringja einu sinni, nei ég hringdi þrisvar og gæti hafa verið afar dónaleg..

Ég mundi nefnilega eftir því að í hansahólfinu voru ekki einungis geisladiskar og snyrtidót.. nei, heldur nektarmyndir af mér! Hver skilur nektarmyndir af sjálfum sér eftir í ólæstum bíl! Í huganum fór ég yfir skelfinguna og auðmýkinguna þegar foreldrar mínir sæju dóttur sína í ankannalegum stellingum á netinu! Systur mínar myndu afneita mér og ég fengi ekki stundlegan frið í vinnunni.. guð, ekki gætu þeir rekið mig fyrir þetta!?

Allan daginn beið ég með öndina í hálsinum, ekki yfir bílnum, ekki yfir tölvunni, ekki yfir fötunum mínum sem voru í skottinu, nei.. helvítis nektarmyndunum!

Skemmst frá því að segja að bíllinn fannst, þreyttur og úr sér genginn.. hálf bugaður og beyglaður en heill. Ég gat ekki beðið eftir að klára vaktina til að komast að ná í hann. Ég fékk lyklana í hendurnar ásamt predikun yfir ólæstum bíl, og rauk út til að ath hanskahólfið.

Ég keyrði heim, steig útúr bílnum, tók upp kveikjara og brenndi myndirnar! Aldrei aftu, lofaði ég sjálfri mér.

Viku seinna kom ég við í vinnunni og dvaldist eitthvað örlítið lengur en ég ætlaði, þegar út kom var bíllinn horfinn! Aftur! Ég skildi lyklana eftir í bílnum.. aftur! Ólæstur, með lyklana í svissinum.. skamm!

Ég rauk inn með tárin í augunum og tók upp símann, treg þó. Hvað átti ég að segja við lögguna? Þeir myndu ábyggilega ekki einu sinni koma! Þá varð mér litið framan í strákskrattana sem ég vann með.. þar sem þeir stóðu og góndu á mig og glott á vörum.

Þeir höfðu aldeilis ákveðið að kenna stelpunni lexíu- jájá, ég lærði!

Vissilega er bíllinn oft ólæstur, en skil lyklana sjaldan eftir í honum og aldrei í svissinum! Nei, ég er séð og geymi þá á milli sætanna! Svo bý ég heldur ekki lengur í miðbænum, en þar þrífst víst glæpalýðurinn best.

Vinir eru vissulega til að kenna manni að batnandi manni er best að lifa.

2 comments:

Anonymous said...

Þú ert yndi :*

Anonymous said...

*hlátur*

frábært... að setjast niður og lesa bloggið þitt... ÆÐI