Wednesday, October 28, 2009

Horfnir eru dagar 'snús' takkans.

Eftir nokkur vandkvæði í byrjun er Lilja komin með nokkuð góða svefnrútínu. Hún er ekki beint fullkomin, þar sem að hún hefur það varla af til klukkan 19 og þá eru batteríin hennar búin. Kapút. Eins og hún hafi verið að læra undir stærðfræðipróf alla nóttina, sofnað fram á stærðfræðibókina, og félagi hennar þurft að líkamlega halda aftur af sér að skrifa ekki LÚSER með svörtum töflutúss þvert yfir ennið á henni.

Ég geri mitt allra besta til að halda henni vakandi til allavega hálf átta, áður en hvorug okkar getur meira. Og hún sofnar nánast sitjandi í rúminu sínu, og lognast loksins útaf.

Ooog þá fer einhver innri vekjaraklukka af stað í hausnum á henni á slaginu 01.30. Stundum 'snúsar' hún og vaknar kl 01.45, en það er sjaldgæft. Þá stekk ég upp, hleyp inn í herbergi til hennar - gef henni vatn að drekka áður en hún vaknar almennilega og heimtar eitthvað meira! Þá loksins sofnar hún aftur til klukkan sex, og þá.. ójá.. hún er vöknuð. Hún er glaðvöknuð og tilbúin í nýjan dag - geltandi skipanir og í rauninni alveg sama um það hve mikið ég þrái, þó ekki sé nema hálftíma í viðbót í svefn.

Síðustu þrjár nætur hefur Lilja komið upp í til mín þegar hún vaknar um 01.30 - vegna þess sem ég get aðeins talið martraðir, eða almenn ónot. Og ég tek hana upp í hálfsofandi og við kúrum til rúmlega sex. Eða, nánar tiltekið.. hún byltir sér og veltir, sparkar í mig og slær og treður tánum upp í nefið á mér ásamt því að liggja með rassinn hálfan ofan á andlitinu á mér. (Kommon, auðvitað ekki allt á sama tíma!) Og ég ligg þarna hálf vakandi, þori varla að hreyfa mig og fyrirlít allar sofandi manneskjur í heiminum.

Svo þarna erum við, klukkan sex að morgni til - Lilja prílandi ofan á mér.. togandi í mig, potandi í mig - kvartandi yfir leiðinlegri og þreyttri mömmu. Ljósið á símanum mínum ekki spennandi lengur, tuskudúkkan hennar sem skrjáfar í er bara fyrir og kremdollan er bara heimskuleg. Vinsamlega kveiktu ljósið og skemmtu mér, þræll!

Svo í morgun þegar ég fálmaði eftir lampanum og við grettum okkar báðar á móti skyndilegri birtunni, huxaði ég: jæja, þetta er lífið mitt núna. Mitt, hver dagur byrjar klukkan sex, líf. Mitt, skemmtu mér eða hlustaðu á mig öskra klukkan sex, líf. Og ég gat ekki annað en hlegið, því að sama hve illa það hljómar - þá er það samt svo yndislega dásamlegt eitthvað.

2 comments:

Anonymous said...

Þetta hlýtur að vera tengt nafninu hennar, Dögun.

Annars hljómar þessi mennski Twister leikur hennar á morgnanna ansi spennandi. Hugsa að ég bralli þetta við tækifæri við næsta hentuga tækifæri.

Fyrsta kvitt ever. Gaman!

- JSJ

alfa said...

Jón, daginn sem ég vakna með tærnar á þér upp í nefinu á mér.. eða rassinn ofan á andlitinu á mér.. þá er eitthvað að í alheiminum, og ég ætti að endurskoða hlutina í lífinu! ;)