Tuesday, October 10, 2006

minningar..-

Er að spjalla við Gunnsuna mína í Sjíkagó og feta mig ósköp varlega niður stíg minninganna, hrædd við það sem ég rekst á. Sumt gleður mig, annað grætir mig.

Minningar eru skondnar, þær eru ekki bara handahófskenndar myndir sem renna í gegnum hugann, heldur fylgir þeim oftar en ekki tilfinning, sem getur komið fram sem fiðrildi í maganum, ógleði eða hreinlega stingandi hausverkur.
Ég upplifi yfirleitt sitt lítið af hverju..

Til dæmis gaman að rifja upp gömul kynni við hitt kynið, hvort sem það eru skyndikynni eða langtímakynni. Þau vekja yfirleitt hjá mér góða tilfinningu, og draga fram brosið. Svo sit ég eins og asni inn á kaffihúsi, með bjánalegt glott á vörunum. Stíll yfir því.

Svo rifjast upp fyrir mér endalokin, hvort sem það endaði með tárum og hurðaskellum eða endaði hreinlega nafnlaust án nokkurra tilfinninga eða annarra ummerkja en á rúmfötunum. Veit ekki hvort er verra.. en því fylgja engin fiðrildi.

Myndir hafa líka mikil áhrif á mig, sem og tónlist.
Það er til dæmis lag sem var spilað í jarðarförinni hennar Lilju sem ég get ekki hlustað á í dag án þess að brotna niður. En svo er aftur á móti lag sem við hlustuðum mikið á, sungum hástöfum með í jöstíinum hennar Hafdísar, sem kveikir á litlu fiðrildunum í maganum. Og yfirleitt get ég ekki varist brosi og fæ kjánahroll niður í tær þegar ég huxa um það þegar við tókum þátt í söngvakeppninni, klæddar í hvítt, með dansara. Jeminn.

Ég á ennþá bágt með að drekka appelsín. Þegar ég finn lyktina af appelsíni, kúgast ég. Samstundis fer mig að svima og ég finn lykt af úldnum fiski. Kannski er það afþví að þegar ég fór minn fyrsta túr á frystitogara, varði hann í fimm vikur og ég drakk ekkert nema appelsín.. þ.e.a.s eftir að mjólkin rann út.
Kannski er það afþví að við komumst seinna að þvi að dælan var biluð, og ég drakk "óhreint" appelsín í fimm vikur? Ég veit það ekki.. en ég er ekki aðdáandi.

Þegar ég keyri framhjá slippnum á Akureyri, huxa ég um úrið hans afa. Þá fæ ég kökk í hálsinn og fer að huxa um sveitina og öll Uppsalamótin sem verða ekki, því það er enginn til að bera ættina lengur, afi er ekki höfuð fjölskyldunnar lengur. Enginn til að kíkja í kaffi til, þegar mann langar ekki til að tala, en langar ekki að vera einn. Stundum fór ég til afa, fékk smá birtu í pepsíið mitt, og ræddi við hann um draumana mína. Alltaf sagði hann það sama: láttu þá rætast. Stundum fór ég til afa til að leggjast í gamla sófann, hlusta á dánarfregnir á rás tvö og huxa um ömmu. Stundum fór ég til afa bara til að afþakka pepsí, súkkulaði eða slátur, horfa á hann drekka kaffi í lítravís og reykja pakka af kamel filterslausum, og horfa á hann tyggja. Enginn tyggur eins og afi. Það var helmingur ánægjunnar af að fara í mat á Uppsalir.

Á úrinu hans afa var slippsmerkið. Og vísarnir voru skip sem snerust. Hann var alltaf með það, og þess vegna finnst mér gaman að keyra framhjá slippnum á akureyri.

Minningar.. ohh, sætu sætu minningar. Ég ætla að halda áfram að búa til minningar, njóta nostalgíunnar sem kemur stundum upp í mér, og láta það eftir mér að sakna. Stundum sakna ég tilfinningar, en ekki persóna. Sakna gleðinnar, þegar mamma keypti handa mér ný föt fyrir sautjánda júní og gaf mér rellu og candyfloss og leyfði mér að vaka frameftir á jólunum. Þegar ég eignaðist fyrstu hjólaskautana mína sem voru gulir og bleikir, og þegar ég eignaðist fyrsta hjólið mitt, sem ég mátti velja alveg sjálf. Ég valdi BMX hjól mömmu til mikillar armæðu, en ég elskaði það!

Ég man líka tregann þegar ég glataði sippubandinu mínu, skelfinguna þegar Hulda systir datt úr rólunni og rotaðist, spenninginn þegar ég og fyrsta "ástin" bökuðum kanelsnúða heima hjá honum, ég man líka augnablikið þegar ég áttaði mig á því að ekki er allt gefið, eða sjálfsagt. Að ástvinir geta verið hrifsaðir frá okkur, þegar síst varir, ástin getur dáið eða dofnað og skilið okkur eftir sár og tóm.

Æji, ég veit ekki hvert ég er að fara með þetta.. það hellast yfir mig svo margar minningar nuna, samhengislausar. Gamlar og nýjar. Góðar og slæmar. En það merkilega við þetta er, að ég held alveg jafn mikið upp á þær slæmu.. því það eru þær sem hafa kennt mér mest.

Ef ég væri einhver önnur, hver væri ég þá?

10 comments:

Anonymous said...

Hæ Krúttidúlla:)
Takk fyrir kvittið á minni bloggsíðu:) Elska þig líka og farðu rosalega vel með þig og fullt af risastórum knúsum frá mér:)Og endilega verðum í sms-sambandi:) Svo langt síðann maður hefur heyrt í þér. .Og já séð þig. Hafðu það gott gella:)
Heyrumst fljótlega:)

Anonymous said...

æðislega fallegar vangaveltur hjá þér... farðu vel með þig skvís!! ;*

Tryggvi said...

Vel gert. Alltaf jafn góður og þroskaður penni. Ekki eldri en þetta ;)

Anonymous said...

Mikið ofboðslega skrifarðu fallega stelpa!! Já, minningarnar eru margar og misgóðar, en gegna samt allar svo mikilvægu hlutverki. Ég sakna þín. Vertu sterk og ekki láta minningarnar yfirbuga þig, því það hefur enginn gott af því að lifa of sterkt í því sem er liðið. Vinnum frekar í því að láta draumana rætast, á la afi...

Anonymous said...

Alfa djúpa Alfa mín :D

yndislegt að lesa nloggið þitt, geri það alltaf reglulega eins og þú veist..
yndislegt að fá þig óvænt í heimsókn um daginn.. langaði bara að hafa þig miklu lengur..
farðu vel með þig í borginni og ekki láta borgar bolann bíta þig ;)
sakna þín og elska þig gullmolinn minn :*

Inga Rut

Anonymous said...

hæ skvís!;)
ótrúlegi penninn sem að þú ert.. það er ekkert smá gaman að lesa bloggið þitt - það er alltaf svo mikil merking á bak við þetta hjá þér!;)
verð að viðurkenna að ég er farin að sakna þín smá! hehe..
Við Felix komum suður með starfsmönnum Sæplast á Árshátíð í endann á Nóvember.. Endilega VERÐUM í bandi þá, svona ef að ské skyldi að ég hefði einhvern frítíma!;) hehe..
Heyrumst! - kv. Íris!;)

Anonymous said...

og já.. þú færð ekkert að vera nein önnur! Alfa á að vera bara Alfa!! og þannig vil ég hafa þig:) Þú ert best - þú sjálf..;)

Anonymous said...

Ég veit ekki afhverju, en þegar ég hugsa tilbaka um okkur, þá kemur bústaðaferð dauðans alltaf upp í hugann. Stúlka með skæri og síðan borðhníf. Gelgjur í kattaslag. Fólk að ríða í sturtunni. Einhver pissandi í saununa. Yddari og ryksuga. Bjórdrykkjuleikirnir sem áttu hálfa sök í öllu sem gerðist. Og svo Alfa hlaupandi fram og til baka, upp og niður að reyna að fixa allt. Eina edrú manneskjan á svæðinu (aldrei þessu vant). Good times...

Anonymous said...

tár í augunum við að lesa þetta krútlan mín... þú ert bara snilldarpenni sem ég hrífst með í hvert skipti.
Það sem þú skrifar er svo satt ... þú ert æði ..
Minningar eru ekkert nema tilfinningar sem geta látið mann veðra vandræðalegan og reiðan með kjánahroll og bros allt á sama tíma ..
ef þú værir ekki þú þá væriru ekki þú og þá væri ekki alfa og þá væri veröldin svo miklu fátækari ...
kynntist þér smátt og smátt en þykir samt alltaf meira og meira vænt um þig.
hlakka til að sjá þig næst sama hvenær það verður ..
þín Guðrún

Anonymous said...

Sakna þín SVO mikið, get ekki beðið eftir því að hitta þig og bralla allan andskotann með þér!!
Nú er bara að hella sér í vinnu og láta tímann líða..
Elska þig rúsínubollan mín ;o)