Saturday, November 17, 2007

Sleppa takinu..

Ég get ekki sleppt takinu.

Við týnumst smátt og smátt. Draumarnir láta undan hversdeginum og löngun lætur undan þörfum. Æskan og gleðin hverfur í gráleita móðu fullorðinsára og ábyrgðar.

Manstu í gamla daga, eða var það í gær, þegar tilhlökkun og biðin eftir árunum sem áttu eftir að koma var óbærileg? Ég huxaði með mér að framtíðin yrði aldrei annað en vandræðalaus, að litlu hjartasárin sem ég hlaut í kringum fermingu yrðu þau verstu sem ég myndi nokkurn tíma upplifa. Að fá bólu á nefið kvöldið fyrir jólaballið yrði það vandræðalegasta sem ég myndi ganga í gegnum og að gleyma afmælisdegi besta vinar míns yrði það ljótasta sem ég myndi gera allt lífið.

Væri það ekki ljúft?

Ég er ennþá að bíða. Bíða eftir vandræðalausa, sársaukalausa, rósrauða lífinu sem ég veit að kemur með fullorðinsárunum. Svo dagar það fyrir mér, að ég verð ekki mikið fullorðnari en ég er í dag. Það skelfir mig.

Íbúðarkaup hræða úr mér líftóruna, og halda fyrir mér vöku á kvöldin. Að kaupa nýjan bíl er skelfilegt. Hjónaband er fjarstætt og barnseignir algjörlega fráleitt. Enda leggur maður slíkt ekki á barn. Ég er barn. Í anda er ég barn.

Þrátt fyrir skelfingu og stundum vott af taugaáfalli er þetta allt á borðinu. Teikniborðinu. Skissuborðinu. Bráðum verð ég 25 ára gömul móðir. Með lítinn púka í nýjum jeppa og íbúð sem er okkar. Skelfilegt.

Það koma dagar þar sem mér líður eins og ég sé fjórtán ára aftur og strákurinn sem átti að verða minn hafi hafnað mér, ég sé með bólu á nefinu og hafi gleymt afmæli besta vinar míns- allt á einum degi. Skelfilegt.

Ég er samt hamingjusöm. Afar. Bara ekki alveg tilbúin að verða stór. Því ég ætla nefnilega að verða svo mikið þegar ég verð stór, og ég ætla að gera svo mikið áður en ég verð stór. Því má það ekki gerast strax, ég er nefnilega aðeins á eftir áætlun. Og geri hlutina stundum í vitlausri röð.

En í lokin ætla ég að vitna í hinn fróða föður minn sem segir ekki margt, en þegar hann gerir það þá hlusta ég. Hann sagði mér eitt sinn að það væri ekkert að því að eltast við draumana sína, maður ætti að eltast við að gera sjálfan sig hamingjusaman, og á meðan maður traðkaði ekki á öðrum til þess, þá væri maður á réttri leið.

Svo, þó ég fari í marga hringi og fari krókaleiðir.. þá er ég samt á réttri leið. Það á eftir að koma í ljós. Ég og litli púkinn.

2 comments:

Unknown said...

Haltu mér slepptu mér Alfa mín.. Þessi færsla er svooo ekta þú ...

Ég segi alltaf að ég ætli að gera hitt og þetta þegar ég verð stór, það er ekki næstum því strax!
..................................

Okkur Hólmari varð rosalega huxað til þín á laugardaginn

Ég kem heim næsta föstudag...
ertu upptekin um næstu helgi? Bara smá .. bara að fá eitt ölfuknús.. bara aðeins að fá að sjá þig.

bros á þig

Anonymous said...

Ég man vel eftir því hvað ég beið spennt eftir því að verða stærri og fá að gera allt sem ég vildi gera. En núna vildi ég óska þess að fá að vera yngri bara í einn dag...