Saturday, November 14, 2009

Næst kynni ég hana fyrir John Mayer.

Ég man mánuðina áður en Lilja fæddist, hve ég kveið því að þurfa að hlusta á endalausa barnatónlist, og hafði áhyggjur af því að hvort tveggja græjunum heima sem og útvarpinu í bílnum yrði rænt af sándtrakkinu úr Pocahontas eða Stubbunum. Ég hef nefnilega verið í bíl með vinum, þar sem allar samræður fóru fram hálf öskrandi yfir manískri útfærslu Jónsa á lagi úr Ávaxtakörfunni, því ef við reyndum að hlusta á eitthvað myndu börnin aftur í þjást af heilaskaða sökum þess að halda niðrí sér andanum á milli öskra. Þið vitið, þegar börn 'gráta', en eru í raun bara að öskra - og ákafinn er svo mikill að þau anda hreinlega ekki á milli, svo maður er farinn að bíða eftir því að æðin í enninu á þeim springi og krakkaheili dreifist smekklega yfir bílsætin.

Það er reyndar ekki búið að vera vandamál með Lilju, þar sem að í fyrsta lagi vorum við mjög 'varkár' þegar hún var minni, að kynna hana aldrei fyrir tónlist sem var einungis ætluð þessum og þessum aldurshópi. Reyndar, rétti hún okkur oftast fjarstýringuna að sjónvarpinu þegar Michael Jackson var í gangi, nú eða Metallica sem var hennar persónulega uppáhald. Og þá sérstaklega þetta HÉRNA.

Yfir þessu lagi sat hún dolfallin. Eins og mamman reyndar.

Eitt af hennar uppáhalds lögum var líka 'Beat it' með Michael Jackson - og oftar en ekki tókst mér að sleikja úr henni fýluna með því að spila það nógu hátt og dansa með henni í stofunni. En nýlega varð hún þreytt á því, og hefur uppgötvað Söngvaborg, sem Hulda systir gaf henni. (Fyrir mína tilstilli þó!) En mér finnst mjög þægilegt að skella skuldinni á Huldu eða mömmu - þær kynntu Lilju fyrir súkkulaðiköku og rjóma til dæmis, og nú má ég ekki baka súkkulaðiköku án þess að barnið taki frekjukast, hlaupandi á veggi og hurðir ef hún fær ekki smá smakk.

Tengt: þegar við vorum upp á spítala um daginn, og Lilja hafði ekki drukkið vökva í fleiri fleiri daga, prófaði ein hjúkkan að gefa henni kókómjólk, sem ég hef staðfastlega bannað Lilju að drekka. Þetta er vissulega minn uppáhaldsdrykkur, en er fullur af sykri svo ég hef ekki viljað leyfa Lilju að smakka. En þar sem þetta var það eina sem hún fékkst til að drekka allan tímann sem hún var lasin, keypti ég ógrynnin öll af þessari sykurleðju og mataði hana á þessu - núna er ég í vandræðum því auðvitað heimtar barnið sína óhollustu og skilur ekkert afhverju mamma er allt í einu farin að banna það! Úbbs.

Allavega, hvað var ég að segja.. já, Söngvaborg! Núna er það það eina sem hún fæst til að hlusta á - og ég gretti mig í sársauka í hvert sinn sem hún réttir mér spóluna til að setja í. Sérstaklega þar sem ég er farin að kunna öll lögin utan að, og stend mig oft að því að vera raulandi lögin yfir matseldinni eða jafnvel skólabókunum. En auðvitað læt ég það eftir henni, afþví að hún er svo fjári krúttleg - og þetta er fyrsta tónlistarkvölin sem ég hef þurft að ganga í gegnum með hana.

Ég veit, ég veit - núna eru allir sem eiga táninga alveg, BÍDDU BARA, og ég geri mér fulla grein fyrir því sem er framundan. Ég var nefnilega einn af þessum táningum, og ég vona bara að foreldrar mínir geti einhvern tíma fyrirgefið mér fyrir Scooter og Haddaway tímabilið.

1 comment:

Jón Sindri said...

Lilja á eftir að verða með topp tónlistarsmekk þegar hún verður eldri. Hún er þegar örugglega með betri tónlistarsmekk en mamma mín !

Þú ert skemmtilegur bloggari. Keep up the g00d work!