Wednesday, November 18, 2009

Fjölskyldan og síminn.

Mamma hringdi í gær, og um leið og ég sá að þetta var hún leit ég á klukkuna og byrjaði að taka tímann til að sjá hvort okkur tækist ekki að slá einhver met. Afþví að þrátt fyrir það að mér finnist einstaklega leiðinlegt að tala í símann þá virðast öll okkar símtöl fara yfir klukkutímann. Og við tölum saman nánast daglega.

Ég hringi kannski til að spyrja hvernig eigi að sjóða kartöflur, og klukkutíma seinna kann ég að gera mjólkurgraut og búin að taka ákvörðun um það hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. En mömmu þykir yfirleitt ekkert skemmtilegt að tala í símann heldur, og yfirleitt er hún farin að reyna að kveðja mig eftir að meðaltali tvær mínútur. Þá heyrist: 'Jæææja..' og ég veit að það er merkið mitt, og ég ætti að kveðja í snatri en í staðinn bít ég það í mig að verða fyrri til að kveðja svo ég held henni á línunni gegn eigin vilja og þumbast við að finna umræðuefni til að vinna keppnina.

Okey, það er of margt fáránlegt við þetta til að ég geti einu sinni talið svo hátt, þar sem ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru engin verðlaun í enda samtalsins/keppnarinnar. Ég veit það alveg. En það er bara svo gaman að vinna. Og ég er viss um að mamma situr alveg steinhlessa eftir hvert samtal, klórandi sér í hausnum á meðan hún veltir því fyrir sér hvaðan öll þess orð hafi komið?! Þar sem hún er nú ekki þekkt fyrir að vera kona margra orða og hennar helsta mottó er; Fæst orð bera minnsta ábyrgð. HAH, Á ÞIG!

Tengt: Ég á það til að snúa ótrúlegustu hlutum upp í keppni, og man mjög skýrt eftir því í ræktinni um daginn þegar ég var á hlaupabrettinu við hliðina á vinkonu minni, sem ég kýs að kalla Vélmennið, og ég sá að hún var að hlaupa á meiri hraða en ég, og þar af leiðandi að brenna fleiri kaloríum, var ég ekki lengi að bæta í hraðann og hækka hann upp í HJARTAÁFALL, og hætti ekki að hlaupa þrátt fyrir svima og blóðbragð og öskrandi lungu. Svo þegar hún stoppaði og hoppaði af brettinu eins og ekkert væri, gat ég dáið sæl, ælandi blóði - því ég hljóp 20 metrum lengra en hún! SUCK IT!

Annars á ég litla systur sem er sennilega lokaðasta manneskja sem ég þekki, og stundum þegar við spjöllum saman þá líður mér eins og ég þurfi að draga upp úr henni orðin, þó við séum bara að ræða átfittið á Justin Timberlake. Hah, sénsinn. Við myndum aldrei leggjast svo lágt að ræða JT. En hún er einmitt þannig að hún leggur hálfgert fæð á síma og símtöl, og það er eiginlega hending ef hún svarar símanum. Stundum hringi ég án þess að hafa nokkuð að segja, þar sem mér dettur ekki einu sinni til hugar að hún svari. Svo ef svo ólíklega vill til að það gerist stama ég mig í gegnum allar 40 sekúndurnar sem samtalið tekur.

Sjáiði til, þetta eru í alvörunni ekki ýkjur - eftir fyrsta HÆ-ið byrjar hún að reyna að kveðja, svo það krefst mikillar ákveðni og hugrekkis að halda henni í símanum þessar 40 sekúndur. Eins og, ég er kannski að tala við eldri systur mína og hún hefur orð á því að hún hafi talað við litlu systur okkar í símann, og þegar ég spyr hversu lengi samtalið entist er hún alveg, EINA OG HÁLFA MÍNÚTUR, BITCHES!

Stundum eru símtölin við hana eins og, Ef ég skelli ekki á NÚNA, gæti einhver dáið. Bless.

Ég stríði henni afþví að ég elska hana, hún veit það, þó ég eigi alveg eins von á símtali frá henni innan skamms, sem endist í fjórtán sekúndur þar sem hún kallar mig kúkalabba.

Ég gleymdi samt að segja ykkur, ég á í svipuðu sambandi við símann minn og hún - nema hvað að ég er meira svona, HVAÐ? HVAÐ VILTU? Og svo er ég ekkert nema kurteisin uppmáluð það sem eftir lifir samtalsins.

Þannig að þið sjáið, þessi taugaveiklun og þetta almennt álitið skrýtna samband við símann, er arfgengt. Genatengt, og því ekki mér að kenna.

3 comments:

Anonymous said...

Hahaha, yndislegt að lesa bloggin þín. Var ekki viss um að þér hefði verið alvara þarna um daginn þegar þú sagðist vera byrjuð að blogga þannig að ég átti alveg eftir að lesa 4 blogg núna!!!

En já ég er sem sagt búin og ætlaði bara að þakka fyrir mig ;o)

Losna við kúluna á þriðjudaginn þannig að ég á eftir að hringja í þíg frá sjúkrabeðinu..
Knús á þig
EMÓ

Anonymous said...

elska að þú sért farin að blogga aftur :-*

-Sunna.

Addi said...

Justin Timberlake er fínn leikari, s.b. Alpha dog :)