Monday, August 16, 2010

Ó hún Jóhanna!

Ég fór á Fiskidaginn mikla á Dalvík um daginn, og auðvitað á súpukvöldið á föstudeginum sem að mínu mati er yfirleitt töluvert skemmtilegra en laugardagskvöldið. Áður en að bærinn fylltist af hungruðum villimönnum fékk ég mér stuttan göngutúr, bæði til að róa skapið mitt sem rann aðeins á undan mér vegna óskemmtilegra aðstæðna, og vegna þess að fólkið mitt var allt komið í heimahús og beið mín þar.

Á leiðinni, í rigningunni hitti ég kunningja minn síðan fyrir nokkrum árum - við deituðum í smá tíma og það er möguleiki á því að við höfum skipst á munnvatni nokkrum sinnum líka. En það var þá. Einhverra hluta vegna verðum við alltaf jafn vandræðaleg þegar við hittumst, en heilsumst nú samt alltaf - og gerum alltaf heiðarlega tilraun til að halda uppi samræðum, sem útaf fyrir sig er auðvitað hetjulegt af beggja hálfu.

Í þetta sinn rákumst við bókstaflega á hvort annað, svo ekki varð hjá því komist að heilsast og bæði hálf móðursjúk og alltof hress og brosandi. Samtalið var svohljóðandi: (nöfnum hefur verið breytt)

Ég: Hæ! Vá! Hæ! En gaman! Hæ!
Hannibal: Hahahahaha! Nei meina, hahahaha! Hæ! Já, gaman að sjá þig! Hæ.

----þögn----

Ég: Er ekki gott að frétta bara?
Hannibal: Rosalega gott! Bara virkilega gott! Allt gott.
Ég: Gott að heyra! Já, það er gott.
Hannibal: Já, það er gott! Mjög gott bara. Hvað með þig?
Ég: Gott! Einmitt. Bara rosa gott. Gott.

----þögn----

Hannibal: Hey, djók. Hérna, þetta er Jóhanna.

Þá tók ég eftir stelpunni sem hafði staðið við hliðina á honum eins og illa gerður hlutur, þessar sársaukafullu tvær mínútur sem við stóðum þarna eins og fífl.

Ég: Sæl Jóhanna, ég heiti Alfa.
Jóhanna: Hæ.

Þarna tók ég eftir því að Hannibal var orðinn hálf grænn í framan, og Jóhanna leit út fyrir að hafa orðið vitni að einhverskonar glæp. Ég tók því sem mínu kjúi, kvaddi snögglega og nánast hljóp áfram. Þó ekki áður en ég hálf-hrasaði niður af kantsteininum, lenti í fanginu á eldri hjónum og skokkaði, já.. skokkaði af stað. Ég held að ég hljóti að hafa haldið að ef ég myndi bara skokka, þá liti ekki útfyrir að ég hefði hrasað, og hent tösku nær sjötugrar konu í götuna - án þess að taka hana upp.

Seinna um kvöldið hitti ég Hannibal aftur, þá var hann einn. Þá kom líka í ljós að stelpan hét ekkert Jóhanna, hún hét Inga.

5 comments:

Hulda syz said...

hahahaha þú ert bara snillingur og ég sé þetta alveg fyrir mér:)

Addi said...

en hvaða ástæðu hafði blessaður drengurinn til að ljúga til nafns á stúlkunni :/

alfa said...

Heh, hann laug ekki.

Hann gleymdi því!

Addi said...

OK :) og hún ekki mikið að leiðrétta hann :D

alfa said...

Hahaha! Nei! Hún varð bara baaaarjáluuuð í staðinn.

Skemmtilegt.