Tuesday, March 08, 2011

Frestunarárátta?

Ég fattaði það í gær að ég er ekki alveg manneskjan sem ég hélt ég væri - já, shocking að ég hafi einungis áttað mig á því í gær. En mér finnst það skemmtilegt, og bera vott um unglinginn í mér. Þar sem ég hef ákveðið að verða seint eða aldrei fullorðin - mögulega að vera samferða Lilju Dögun í þessu öllu bara. Getum verið BFF's, sem er alls ekki leim eða vandræðalegt fyrir hana.

Ég nefnilega vil (og hélt lengi vel að ég væri) vera rosalega húsmóðurleg í mér - svona KONA sem bakar alla sunnudaga og býður fólki í kaffi og mat hægri vinstri, saumar eigin föt og 'brasar'. Þannig var ég í hausnum á mér, og trúði því svo sannarlega.

Þar til í gær að ég áttaði mig á því að það er búið að vera ljóslaust inn í herbergi í rúman mánuð núna.. afhverju? Nú afþví að það er svooo mikið mál að skipta um ljósaperu í loftljósinu. Og þegar peran sprakk fyrir fjórum vikum síðan.. yppti ég öxlum og náði í lampa inn í stofu í staðinn.. tók hann úr sambandi, losaði flæktar snúrur, fór með hann inn í herbergi - útbjó náttborð undir hann sem ég klæddi og stakk honum að lokum í samband. Hann fittaði ekki alveg nógu vel þarna, svo ég breytti aðeins inn í herbergi svo það passaði allt betur saman. Og voila! Ljós! Þessu nennti ég, en að skipta um ljósaperu í loftljósinu? Nei!

Alveg eins og þegar það fór pera inn í eldhúsi.. þá tók það mig tæpa tvo mánuði að KAUPA eina peru. Sem minnir mig á það, útiljósið er líka farið.

Í gær áttaði ég mig líka á því að ég var að þvo sömu vélina í þriðja sinn! ÞRIÐJA SINN. Afhverju? Nú.. ég gleymi alltaf að taka úr henni! Ég skrifaði viljandi 'gleymi'.

Inn í herbergi er ég með kósý stól sem hægt er að láta fara vel um sig í og lesa.. en það er bara ekkert pláss. Ég nefnilega ákvað fyrir nokkrum vikum að fara í gegnum fataskápinn minn og losa mig við föt sem ég nota ekki.. og þarna eru þau bara enn. Og ég ekki búin að fara í gegnum þau. Svo þegar ég tek af snúrunni, hreina þvottinn.. þá huxa ég með sjálfri mér: Jah, það tekur því nú varla að ætla að fara að brjóta hann saman áður en ég fer í gegnum hin fötin.. svo nýja hrúgan endar bara ofan á þeirri gömlu.

Í síðustu viku fór ég með sumardekkin heim til mömmu og pabba - eftir að hafa rúntað með þau í bílnum síðan í desember.

Ég og frestunaráráttan mín lifum góðu lífi saman.

No comments: