Thursday, August 09, 2007

...

Mig langar að vera krakki aftur. Svo ég gerði lista yfir það sem ég þarf að gera til að geta talist sem krakki. Hálfþrítugur krakki.
Ég þarf að..

1. Syngja í hárburstann minn, fjarstýringuna eða jafnvel sjampóbrúsann.
2. Spila lag sem mér finnst skemmtilegt hátt og oft.
3. Labba berfætt í blautu grasinu.
4. Lesa bara teiknimyndasögurnar í blaðinu, henda hinu.
5. Alls ekki stíga á strik á gangstéttum.
6. Spila bara leiki þar sem ég bý til reglurnar jafnóðum.
7. Finna fallega steina og safna þeim!
8. Borða ís í morgunmat.
9. Kyssa frosk, bara til öryggis. Kettir virka líka. Til öryggis..
10. Láta lesa fyrir mig sögu.
11. Taka tilhlaup yfir polla og hoppa á öðrum fæti yfir gangbrautir.
12. Fela grænmetið mitt í sérvettunni minni.
13. Vaka framyfir háttatímann minn.
14. Borða eftirréttinn fyrst.
15. Nöldra pínulítið og fá mér svo lúr.
16. Setja alltof mikinn sykur ofan á seríósið mitt eða kornflexið.
17. Setja upp fýlusvip næst þegar einhver segir ‘nei’ við mig.
18. Spyrja ‘afhverju’ rosa oft.
19. Trúa á ævintýri.

Fyndið. Þegar ég las yfir þetta áttaði ég mig á því að ég geri þetta reglulega!

1. Ég syng og tala iðulega í hárburstann, fjarstýringuna, sjampóbrúsann og jafnvel skrúfjárn þegar enginn sér til. Þá stend ég fyrir framan spegilinn í ímynduðu viðtali hjá Jay Leno eða Oprah Winfrey, oftast eftir að ég vann Nobelinn. Stundum eftir Grammy og einstaka sinnum eftir Óskarinn. Ég hef einnig nokkrum sinnum verið gestur í Kastljósi.
2. Oftast þegar ég heyri lag í fyrsta skipti sem mér finnst skemmtilegt, þá spila ég það oft og mishátt. Stundum í hátt í tvo sólarhringa. Og fæ samt ekki leið á því. OCD anyone?!
3. Ég elska að vera berfætt! Geng oftast um berfætt, utan þess þegar ég á von á líkamsmeiðingum. Oft í grasi, sjaldan blautu.
4. Í blaðinu les ég oftast einungis slúðrið og teiknimyndasögurnar. Hitt les ég á netinu eða horfi á í sjónvarpinu. Fréttir hvað?
5. Þetta geri ég oft. Bannað að stíga á strik! Og finnst alltaf jafn skemmtilegt! Enda vinn ég oftast.
6. Flestir leikir sem ég spila snúast um reglurnar mínar. Uppáhalds leikurinn minn kallast I win. Enda vinn ég oftast.
7. En leiðinlegt.
8. Ég borða hvað sem er á morgnana, ís, snakk, hlaupabirni.. bara það sem mér dettur í hug að borða!
9. Ojj, þetta gerði ég samt aldrei! En ég kyssi kisann minn reglulega, til öryggis.
10. Ég elska að láta lesa fyrir mig sögur! Svona rétt fyrir svefninn.. en þær eru flestar klúrar.
11. Haha! Mér finnst skemmtilegra að hoppa ofan í pollana.
12. Huh.. hvaða grænmeti?
13. Huh.. hvaða háttatíma?
14. Reglulega! En ég er samt firm believer á að geyma það besta þar til síðast.
15. Ég nöldra mikið og oft. En nenni yfirleitt ekki að fá mér lúr. Sem gefur mér meiri tíma til að nöldra meira og oftar.
16. Já takk. Ég fæ mér smávegis kornflex með sykrinum mínum.
17. Ég vil ekki heyra orðið ‘nei’ og á oft erfitt með að hemja það að setja upp reiðisvip eða stappa niður fótunum þegar það gerist.
18. Afhverju er skemmtilegasta spurningin sem Guð datt í hug.
19. Ævintýri gerast á hverjum degi!

Einu sinni bjuggu þrjár litlar mýs í ruslaskápnum mínum, þær voru Mamma mús, Pabbi mús og Mikki mús. Þau elskuðu að spila körfubolta en gátu því miður ekki stundað hann mikið. Því þær voru mýs.

Einn daginn setti ég upp gildrur inn í ruslaskápinn.
Fyrsta daginn fann ég Pabba mús dáinn.
Annan daginn fann ég Mömmu mús dána.
Þriðja daginn fann ég svo Mikka mús og kærustuna hans sem hann hafði tekið með heim til að kynna fyrir foreldrunum í fyrsta sinn, bæði dáin.

Segðu svo að ég trúi ekki á ævintýri.

6 comments:

Anonymous said...

Þegar ég var í Róm var bannað að snerta línu. En það nennti eiginlega aldrei neinn að vera memm þannig að ég gafst fljótt upp á þessu. En ég má bara labba á hvítu strikunum þegar ég fer yfir gangbraut, reyndar hleyp ég oftast, sérstaklega þegar ég er full. Þá er ég rosa öflug í öllu svona. Öl sýnir innri mann.

Anonymous said...

Alfa yndi.

Anonymous said...

Jamm þú ert algjört yndi!

Hlakka til að sjá þig næst sæta :)

Knús

Anonymous said...

það kemur mér alltaf í allavega aðeins betra skap þegar þörf er á að lesa bloggið þitt... eins og við þekkjumst nú lítið... takk.

Anonymous said...

Haha, lék leikinn "bannað að stíga á línu" seinast í gær!! Begga nennti samt ekki að vera með..

Þú verður að fara að hringja í mig, eða svara símanum þínum, þarf að fá að tala við þig

Ari said...

Þessi fallega músasaga minnti mig á að jafnvel þó morgunstund gefi gull í mund segi manni að maður eigi að vera snemma á ferðinni, þá gildir það líka að önnur músin nær ostinum úr gildrunni... :p